SAGA FLUGVÉLARINNAR

Mynd: Baldur Sveinsson

Flugvélin var hér notuð við margvísleg flutningastörf á vegum hersins, m.a. hafa fundist gögn sem sýna það að vélin var notuð til að fljúga með hermenn sem hér voru staðsettir í skemmtiferðir til Akureyrar og var þá lent á Melgerðismelum. Einnig var vélin notuð til að flytja háttsetta herforningja milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

 

Flugfélag Íslands kaupir TF-ISH

Flugfélag Íslands keypti þessa flugvél af herliði Bandaríkjamanna á Íslandi árið 1946. Er hún skrásett hér til bráðabirgða þann 26. júlí sama ár vegna reynsluferða og fékk þá einkennisstafina TF-ISH. Í viðtali sem greinarhöfundur átti við Örn Ó. Johnson í janúar árið 1982 kom fram að hann hafði fyrstur Íslendinga flogið vélinni þann 27. júlí, þá í lendingaræfingum með flugmanni Bandaríkjahers, Lieutenant Hartraft. Örn tók við vélinni þann 1. ágúst og er hún formlega skrásett hér tuttugu dögum síðar. 

Þegar TF-ISH var keypt var orðin veruleg þörf fyrir landflugvél af þessari stærð einkum á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Fyrir voru í flugflota Flugfélagsins Catalina flugbáturinn TF-ISP, de Havilland Rapite TF-ISM og Noorduyn Norseman TF-ISV.

 

Flugvélin TF-ISH nefnd Gljáfaxi

Í fyrstu var TF-ISH með innréttingu, þ.e. með málmstólum meðfram hliðunum beggja megin, en haustið 1947 er ný 21 sætis farþegainnrétting sett í vélina í Bretlandi. Í nóvember það sma ár gerði Flugfélag Íslands opinbert val á félagsmerki og jafnframt tilkynnti félagið að flugvélar þess yrðu skírðar hestanöfnum sem öll hefð endinguna “faxi”. Hlaut TF-ISH nafnið “Gljáfaxi”.

Sem fyrsti þristur flugfélagsins vann Gljáfaxi brautryðjendastarf á flugleiðum félagssins innanlands og var vélin t.d. notuð við að kanna lendingastaði víðsvegar um landið. Lenti Gljáfaxi ma.a á Langasandi við Akranes þann 10. maí 1948 og þann 5. September sama ár á nýmerktum flugvelli við Dúfunesfell, skammt frá Hveravöllum. Einnig var Gljáfaxi oft í förum til útlanda á þessum árum, en það voru fyrst og fremst leiguflugferðir eða vöruflug.

 

Gljáfaxi lendir í óhappi

Þann 1. nóvember árið 1948 henti það óhapp að Gljáfaxi rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli í hálku og stórskemmdist. Ákveðið var að viðgert skyldi fara fram hérlendis og er það fyrsta stórviðgerð sem framkvæmd er á Íslandi á svo stórri flugvél, en henni stjórnaði Brandur Tómasson flugvirki.

Árið 1965 fékk Flugfélag Íslands sína fyrstu Fokker F27 Friendship flugvél, en þessi flugvélategund var valin arftaki Douglas DC-3 á innanlandsleiðum félagsins. Eftir því sem F27 vélunum fjölgaði dró smám saman úr notkun þristanna í innanlandsflugi, en eftir 1967 eru aðeins tveir þeirra eftir, Gljáfaxi og Gunnfaxi.

 

Gljáfaxi í landgræðslustörfum

Gljáfaxi var mikið notaður í Grænlandsflugi á þessum árum og þá með skíðabúnaði. Árið 1972 ákvað stjórn Flugfélags Íslands, að frumkvæði Arnar Ó. Johnson, að gefa Landgræðslu Ríkissins Gljáfaxa til landgræðslustarfa.

Hin rausnarlega gjöf Flugfélagsins kom í kjölfar samþykktar félagsfundar Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna frá því haustið 1971, um að bjóða fram flugstörf í þágu landgræðslu landsins án endurgjalds. Flutningsmenn tillögunnar voru flugstjórarnir Dagfinnur Stefánsson og Skúli Br. Steinsþórsson.

Breytingar voru gerðar á vélinni á verkstæði Flugfélagsins og í hann settur búnaður til áburðar-dreifingar að Nýsjálsenskri fyrir-mynd. Þessu verki stjórnaði Gunnar Valgeirsson flugvirki, en hann hafði farið sérstaklega til Nýja-Sjálands að kynna sér hvernig breytingunum væri háttað. Þann 12. maí árið 1973 var vélin skráð á nafn Landgræðslu ríkissins og hlaut einkennisstafina TF-NPK, en stafirnir eru efnafræðileg tákn þeirra áburðartegunda sem mest eru notaðar; N = köfnunarefni, P = fosfór og K = kali. 

 

gljáfaxi fær nýtt nafn

Vélin var skírð Páll Sveinsson í höfuðið á fyrrverandi landgræðslustjóra, en hann var mikill áhugamaður um notkun flugvéla við landgræðslustörf. Með tilkomu þessarar flugvélar margfaldaðist afkastageta Landgræðslunnar því Páll Sveinsson getur borið 4 tonn af áburði í hverri ferð.

Á þeim 30 árum sem Páll Sveinsson hefur verði í notkun Landgræðslunnar hefur vélinni verði flogið í alls um 4733 flugtíma og dreift um 35200 tonnum af fræum og áburði í 8848 flugferðum. Heildarflugtími flugvélarinnar frá upphafi eru um 26692 klukkustundir.

Frá upphafi hefur TF-NPK verið að mestu leyti flogið af atvinnuflugmönnum sem lagt hafa fram vinnu sína án endurgjalds og eiga þeir miklar þakkir skildar fyrir ómetanlegt framlag sitt.

Núverandi flugrekstrarstjóri landgræðsluflugsins er Tómas Dagur Helgason, tæknistjóri er Kristján Tryggvason. Um viðhald flugvélarinnar TF-NPK sjá þeir Haraldur Tyrfingsson  og Þórarinn Sigurgeirsson flugvirkjar. Sigurður P. Sigurjónsson radíóvirki sér um fjarskiptatæki vélarinnar.

PPJ

SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA ÞRISTAVINA

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.