29. ágúst 2012
Sælir félagar.
Eitt af því sem framkvæma þurfti fyrir endurnýjunina á flugskírteini Páls Sveinssonar var að vikta vélina. Skýlispláss fékkst hjá norðanmönnum og Helgi flugvirki hjá Arngrími var Erlingi innan handar við verkið. Starfsmenn umferðareftirlits Vegagerðarinnar önnuðust viktunina og stóðu sig frábærlega. Er skemmst frá að segja að þetta tók ekki langan tíma og er hér komið á framfæri þakkir til allra sem hlut áttu að verkinu.
Annað sem mig langar að segja frá er að á ferð okkar hjón um landið, komum við í Skaftafell og gengum upp að Svartafossi. Bæði vorum við með húfur merktar þristavinum. Nokkra stund áttum við við fossinn og var þar margt ferðamanna af hinum ýmsu þjóðernum. Frakki einn vék sér að okkur og spurði hvernig stæði á því að við værum með húfur merktar DC3. Ég sagði honum frá félaginu og vélinni okkar og þá sagði hann að ástæðan hvers vegna hann spurði væri sú að faðir hans hafi verið flugvirki í franska flughernum og hafi haft með höndum eftirlit með þristum hersins í Víetnam. Ég gf honum síðan húfuna mína og var það eins og ég hafi gefið honum gull.