16. október 2007
Jæja félagar.
Nú er svo komið að TF-ISB er komin í geymslu á Keflavíkurflugvelli. Allt ferðalagið hófst með því að BK verktakar tóku að sér að flytja vélina til Keflavíkur. Er skemmst frá því að segja að eftir ákveðið undirbúningaferli og eins bið eftir leyfi lögreglu og bið eftir veðri, var ákveðið að hefjast handa sl. sunnudag. Vel gekk að koma vélinni frá skýli og norður fyrir Loftleiðahótelið þaðan sem hún var hifð yfir girðinguna og sett á langan vagn. Síðan var ekið um Flugvallarveg, Bústaðaveg ( þar sem ein umferðaljós urðu að láta undan), Snorrabraut, Sæbraut, Ártúnsbrekku og í gegnum Árbæjarhverfið upp á Suðurlandsveg. Síðan var farið um Bláfjallaveg, Krísuvíkurveg, Reykjanesbraut til Keflavíkur og þaðan upp á flugvöll. Allt gekk þetta áfallalaust og tók ekki nema um fjóra tíma. Þar var vélin hífð af vagninum og komið inn í skemmu sem flugvallarstjóri Keflavíkurflugvallar var búinn að útvega fyrir vélina. Ekki voru margir sentimetrar upp á hlaupa við að koma vélinni þar inn en tókst án þess að skaði hlytist af. Vélin er því komin í læsta geymslu undir vökullum augum starfsmanna Keflavíkurflugavallar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það og eins fyrir hjálpina, því eins og allir vita var félaginu nánast úthýst bæði fyrir TF-ISB og Pál Sveinsson í Reykjavík.
Aðeins er því eftir að finna geymslu fyrir varahlutina og annað sem félagið er með í sinni vörslu á Ólafsvöllum við Elliðaár en til stendur að rífa það hús. Er stjórn félagsins eins og gráir kettir að leita að hentugu húsnæði fyrir geymslu. Það er leitt til þess að vita að svona félag geti ekki haft starfsemi í eins stóru byggðarsamfélagi og er í Reykjavík.
Með félagskveðju, Karl Hjartarson