Staðan á Þristinum okkar

Ágætu Þristavinir

Það hefur ekki heyrst frá okkur í langan tíma. Stjórnin hefur þó fundað annað slagið og farið yfir stöðuna.

Nú hefur vélin ekki flogið í þrjú ár, það er vegna viðhaldsmála á henni og skort á fjármagni til að setja hana í stand og gera flughæfa. Stærstu liðirnir sem þarf að vinna í eru loftskrúfurnar á vélinni (propeller) þær þurfa báðar að fara í skoðun og svokallað overhaul. Einnig þarf að senda slökkviflöskur á örum mótornum til skoðunar, þetta hvorutveggja þarf að gera erlendis og er kostnaðarsamt. Jafnframt þarf að fara í alls herjar skoðun á allri vélinni þar sem hún hefur ekki flogið það lengi og hefur ekki verið viðhaldið eftir viðhaldsprógrammi okkar. Jafnframt er olíuleki á öðrum mótornum sem þarf að finna  og laga.

Það eru orðnir fáir flugvirkjar eftir sem eru með réttindi á vélina og við þurfum að vinna í því líka. Einnig eru hæfnipróf allra flugmanna útrunnin og þarfnast endurnýjunar. Allt er þetta gerlegt en þarfnast fjármagns til að hægt sé að gera vélina flughæfa aftur. Fjármögnunin er í vinnslu hjá okkur núna, en okkur tókst ekki að fjármagna rekstur vélarinnar síðustu ár.

Stjórnin tók ákvörðun um að senda ekki út rukkanir fyrir félagsgjöldum fyrir árið 2023. Það var ákveðið að gera það ekki þar sem við vitum ekki hvort okkur tekst að koma vélinni á flug aftur. Þó flugvélin verði varðveitt í óflughæfu ástandi þá er ljóst að það þarf fjármagn til þess að varðveita hana. Þegar við höfum skýra framtíðarsýn munum við taka ákvörðun um félagsgjöld á aðalfundi.

Aðalfundur félagsins hefur ekki verið haldinn fyrir árin 2020, 2021 og 2022. Fyrstu tvö árin var það vegna Covid faraldsins en 2022 vegna þeirrar óvissu sem er með framhaldið. Stjórnin vildi hafa einhver svör varðandi framhaldið á aðalfundi. Við munum boða til aðalfundar fyrir þessi þrjú ár núna í október.

Þristurinn okkar verður 80 ára 1. október og hefur verið ákveðið að halda upp á það í Flugsafni Íslands, Akureyri laugardaginn 7. október n.k. Dagskráin verður birt hér á síðu okkar á næstu dögum. Við vonumst til að sjá sem flest ykkar á Flugsafni Íslands þann dag.

f.h. stjórnar

Tómas Dagur Helgason, formaður.

Nýjustu fréttirnar

Saga Gunnarsholts

Sveinn Runólfsson, fyrverandi Landgræðslustjóri og varaformaður Þristavinafélagsins, hefur skrifað bók um sögu Gunnarsholts....

Lesa frétt

SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA ÞRISTAVINA

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.