12. mars 2006
Kæru félagar,
Þann 4. febrúar síðastliðinn var samnorrænn fundur haldinn í Kaupmannahöfn með Þristavinafélögum. Það mættu fulltrúar frá öllum fimm þjóðunum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmerkur auk okkar en við vorum sjö sem fórum héðan.
Öll félögin stunda útsýnisflug á vélum sínum nema við. Þau eiga það líka öll sameiginlegt að allir sem fljúga með vélunum verða að ganga í Þristavinafélagið áður en farið er í flug. Það kom fram að það er krafa frá flugmálastjórnum í hverju landi fyrir sig. Danir eru með flesta meðlimi sem borga árgjöld reglulega eða 2700 meðlimi, Finnar hafa 1700 meðlimi sem greiða flullt árgjald, en það eru skráðir rúmlega 4000 félagar í Finnska Þristavinafélagið. Norðmenn eru með 1200 meðlimi, það kom ekki fram í máli Svíana hvað þeir eru með marga félagsmenn. Það virðist vera u.þ.b. þrjátíu til sextíu félagar í hverju landi sem eru virkir félagar þ.e. taka virkan þátt í starfsemi félagsins. Norðmenn og Danir eru með vélina sína skráða sem “Experimental “ vél en Svíar og Finnar eru með vélarnar skráðar sem einkavél. Okkar vél og Finnska vélin eru einu vélarnar sem eiga einhverja sögu í landinu en að sjálfsögðu eiga Þristar mikla sögu í öllum löndunum þó ekki hafi tekist að varðveita þær vélar sem voru í landinu en þess í stað voru keyptir aðrir Þristar til landanna til að eiga flughæfa vél. Okkar vél er sú eina sem hefur flogið á hverju ári frá því að hún var smíðuð og hefur þannig þurft að “vinna fyrir sér”. Þegar kynningin á félögunum og hvað þau eru að gera var lokið þá var farið í nefndar störf þar sem farið var yfir hin ýmsu mál sem við getum unnið sameiginlega að og hjálpast að með.
Fundurinn byrjaði með því að félögin kynntu starfsemi sína. Það er einn Þristur í hverju landi fyrir sig sem er flughæfur. Finnarnir eiga aðra vél, eins og við, sem er ekki flughæf en þeir hafa ekki plön um að gera hana flughæfa.
Viðhald og varahlutir voru rædd í einni nefndinni. Hannes Thorarensen og Kristján Tryggvason sátu í þeirri nefnd frá okkur. Danir og Finnar eiga mikið af varahlutum í vélarnar, fram kom hjá þeim að þeir eru aflögufærir með varahluti. Það eiga þó allir klúbbar þó nokkuð af varahlutum en ekki ljóst hversu mikið það er. Það var ákveðið að hver klúbbur fyrir sig myndi skrá þá varahluti sem til eru og þannig gerður sameiginlegur listi yfir það sem til er í löndunum. Það myndi gera alla samvinnu auðveldari þannig að það væri hægt að fara beint í listann og finna hvar hluturinn er til og þannig að auðvelda okkur varahlutaöflun. Í þessum hópi var einnig rætt um þjálfun flugvirkja, Norðmenn eru búnir að útbúa réttindanámskeið fyrir flugvirkja á DC-3 sem samþykkt er af Norsku flugmálastjórninni. Dönsku vinir okkar DC-3 Vennerne hjálpuðu okkur með varahluti síðasta sumar og það stendur til boða áfram, samstarf er því komið á milli þessa tveggja klúbba að þessu leiti.
Flugmenn og réttindi þeirra voru rædd í annari nefnd, Hallgrímur Jónsson sat þar fyrir okkar hönd. Þar voru rædd hæfnipróf og nýþjálfun flugmanna. Norðmenn eru með námskeið sem er samþykkt af flugmálastjórn fyrir nýþjálfun flugmanna. Við eigum líka þannig námskeið í okkar fórum en Norðmenn eru búnir að útfæra það nánar en við, þannig að það gæti nýst okkur vel ef við förum út í þjálfun. En í öllum löndunum þarf hver maður að fljúga vélini í 6 klst til að ljúka þjálfun, það er því töluverður kostnaður því samfara að þjálfa nýtt fólk á vélina. Það var farið yfir þær starfsaðferðir (procedura) sem eru notaðir hjá hverjum klúbbi fyrir sig og skipst á skoðunum og reynslu af þeim. Farið var yfir þær takmarkanir sem eru notaðar s.s. vinda takmarkanir og ýmislegt fleira. Þarna lærðu menn af hver öðrum þar sem hægt var að skiptast á skoðunum og reynslu manna af þeim starfsaðferðum sem þeir hafa notað og breytt og fundið aðrar sem virka betur. Einnig var rætt um að skiptast á flugmönnum ef þörf er á en það gæti verið einhver þörf á því á næstunni hjá sumum klúbbunum allavega. Við erum best setnir með fjölda flugmanna sem eru með réttindi á vélina. Ákveðið var að hafa samstarf varðandi flugmenn og þjálfun þeirra og hver klúbbur fyrir sig leitar eftir því sem vantar í hvert og eitt skipti. Undirritaður hefur þjálfað flugmann fyrir DC-3 Vennerne á danska þristinn og Thore Virik frá Dakota Norge flaug okkar þristi á flugsýningunni í Duxford. Samstarf í að skiptast á flugmönnum hefur því þegar hafist á milli okkar.
Heimasíða, sala á minjagripum og skipulagning flugs var rædd í þriðju nefndinni Pétur L. Lentz og Atli Thoroddsen sátu í henni fyrir okkur. Í þessum málum getum við byrjað samstarf strax t.d. í sameiginlegri pöntun á minjagripum til sölu og ná þannig hægstæðara verði á hvejum hlut fyrir sig. Skipst var á hugmyndum um hvað klúbbarnir væru að selja og hvað seldist best. Samvinna varðandi heimasíðu var einnig rædd allir klúbbar verða með tilvísun í heimasíður hinna klúbbana á sínum síðum þannig að tenging kúbbana verður því sýnileg þarna strax. Pétur og Atli eru í samstarfi nú þegar við þá sem sjá um sölu á minjagripum í hinum klúbbunum, einnig höfum við notað DC-3 NYT sem okkar félagsblað þannig að samstarfið er komið í fullan gang á þessu sviði.
Fjórði hópurinn fjallaði um skipulagningu og fjármögnun klúbbana, einnig samskipti við flugmálastjórnir í viðkomandi löndum og tryggingar. Undirritaður og Páll Stefánsson tóku þátt í umræðum í þessari nefnd fyrir okkar hönd. Við lærðum ýmislegt af frændum okkar þarna, m.a. varðandi meðlimagjöldin, flestir klúbbarnir eru með fjöldskyldu meðlima gjald það er eitthvað sem við þurfum að skoða fyrir næsta aðalfund. Klúbbarnir á hinum norðurlöndunum fá mest af sínum tekjum með því að fljúga með meðlimi en allir hafa þó einhvern styrktaraðila. Farið var yfir tryggingar allir kvörtuðu yfir háum iðgjöldum og rætt um að vinna að því sameiginlega að tryggja allar vélarnar. Sænski klúbburinn ætlar að skoða það mál og skila niðurstöðu til okkar hinna. Fram kom hjá öllum aðilum að samvinna við flugmálastjórnir í viðkomandi löndum gengur vel og ekkert undan því að kvarta.
Eftir fundinn hefur gengið tölvupóstur á milli manna um hin ýmsu mál og þetta hefur opnað okkur nýja leið til lausnar á vandamálum sem við eigum við að glíma og auðveldað okkur aðgang að ýmsu sem við þurfum á að halda. Ég vona að fundurinn skili okkur góðum árangri í frekari samvinnu við rekstur vélana og að sameiginlega takist okkur að halda Þristunum á lofti í mörg ár í viðbót. Ákveðið var að halda næsta fund í Sandefjörd í Noregi að ári og gera þennan fund að árlegum viðburði.
Tómas Dagur Helgason.