29. september 2005
Formaður Þristavina hélt ræðu við afhendingu TF-NPK og ISB þann 28.júlí síðatliðinn. Þar var farið yfir aðdraganda að stofnun félagsins, væntanlega ferð til Duxford á Englandi, samstarf við Icelandair og fleira.
Landbúnaðarráðherra aðrir þristavinir.
Það er mér mikil ánægja og heiður fyrir hönd Þristavinafélagsins að veita Þristunum viðtöku. Ég vil þakka Landbúnaðarráðherra og ráðuneyti hans og Landgræðslu ríkisins fyrir það traust sem hinu nýstofnaða Þristavinafélagi er sýnt með því að fela því varðveislu þessara merku véla. Við munum leggja allan okkar metnað í að standa undir þessu trausti, með því að halda Páli Sveinssyni við og fljúga honum á hverju ári eins og gert hefur verið undanfarin 62 ár. Stofnun DC-3 Þristavinafélagsins átti sér nokkurn aðdraganda.
Undanfarin sjö ár höfum við byrjað hvert dreifingarár, með umræðu um að verið sé að nota vélina í síðasta skipti til áburðarflugs þar sem uppgræðsla landsins hafi færst í auknum mæli á jörðu niður til bænda. Á þessum sjö árum hef ég oft litið á hinn þristinn TF- ISB sem stendur í niðurníslu við hlið Páls Sveinssonar í flugskýli Landgræðslunar og hugsað að svona mætti Páll Sveinsson ekki enda. ISB var síðast flogið inn til Reykjavíkur frá Akureyri þann 27. apríl 1976 og lagt. Landgræðsla ríkisins eignaðist vélina 1975, en á þeim tíma var litið á hana sem varahluti fyrir Pál Sveinsson..
Mér var kunnugt um að starfrækt væru áhugamannafélög á norðurlöndunum um rekstur og varðveislu þrista. Fyrir u.þ.b. fimm árum komst ég í samband við danskan þristavin og var mér boðið í heimsókn til þeirra, og fórum við fjögur í heimsókn til þeirra. Kynntumst við þar einnig þristavinum frá Noregi, Finnlandi og síðar Svíðþjóð líka og kynntum okkur það rekstrarfyrirkomulag sem þeir eru með á þristunum og þristavina-félögunum.. Þessar heimsóknir urðu síðan árvissar ýmist til Danmerkur eða Noregs og fórum við mismunandi mörg í þessar heimsóknir.
Á heimleið úr þeirri síðustu í september síðastliðin var svo stofnuð undirbúningsnefnd að stofnun félags um þristinn hér, og hinn 3. mars síðastliðinn var haldinn stofnfundur að félagi sem var gefið nafnið DC-3 Þristavinir. 100 manns mættu á stofnfundinn, og í dag eru u.þ.b. 570 félagar í félaginu. Þessi viðbrögð við stofnun félagsins eru langt fram úr okkar björtustu vonum en það gleður okkur að sjá hvað það eru margir sem eiga taugar til vélanna og vilja taka þátt í að varðveita þær.
Við kynnum Pál Sveinsson nú í nýjum litum, litum sem vélin hefur ekki verið í áður en ég vona að hún verði í sem lengst. Icelandair og DC-3 Þristavinir hafa gert með sér samning, sem verður undirritaður hér á eftir, um að Icelandair verði aðalstyrktaraðili DC-3 Þristavina. Það fer vel á því að Icelandair skuli gerast aðalstyrktaraðili okkar, þar sem Flugfélag Íslands, forveri Icelandair gaf vélina árið1973 til Landgræðslu Ríkisins, eftir að hafa haft hana í notkun frá árinu 1946 og Flugleiðir hafa æ síðan sýnt málinu mikinn áhuga og án þeirra hjálpar væri flugvélin að öllum líkindum ekki fljúgandi í dag. Og nú hefur Icelandair ákveðið að koma að málinu og aðstoða okkur við að halda henni fljúgandi.
Okkar fyrsta verkefni, er í stærri kantinum, við munum taka þátt í 60 ára afmæli millilandaflugs frá Íslandi, sem Icelandair ætlar að minnast með veglegum hætti. Okkar þátttaka verður í því fólgin að fljúga til Glasgow og Kaupmannahafnar. Við munum þó hafa viðkomu á fleiri stöðum í ferðinni.
Lagt verður af stað 5 til 7 júlí, en það fer eftir veðri, haldið verður til Duxford í Englandi. Helgina 9 til 10 júlí munum við taka þátt í Flying Legent airshow í Duxford, sem er stærsta flugsýning sinnar tegundar í Evrópu í sumar. Þar verður minnst 60 ára afmælis frá stríðslokum. það er því mikið lagt í þessa sýningu hjá þeim og mikill heiður fyrir okkur að fá að taka þátt í henni.
Þann 11. júlí verður svo flogið til Glasgow í hátíðahöld Icelandair í tilefni af 60 ára afmæli millilandaflugs á vegum Íslendinga sem haldið verður upp á með veglegum hætti þann 12. júlí.
14. júlí verða síðan hátíðahöld á vegum Icelandair í Kaupmannahöfn
Í Kaupmannahöfn ætlar DC-3 vennerne að mæta okkur á þristinum sínum og fljúga með okkur samflug „formation“ inn til Kastrup.
Þann 14. júlí munum við svo leggja af stað heim frá Kaupmannahöfn. Við munum stoppa í Torp í Noregi til að heimsækja norska þristavini, en norski þristurinn hefur aðsetur þar. Líkt og í Danmörku þá munu þeir koma á móti okkur og fljúga með okkur samflug inn til Torp, líklega bæði á DC-3 og Harvard.
Þann 15. júlí eða þegar veður er hagstætt munum við svo halda heim á vélinni til Íslands. Hugsanlegt er að lent verði í Færeyjum á heimleiðinni ef veður leyfir.
Það hefur að verið heillandi að vinna að undirbúningi að stofnun félagsins og undirbúning við ferðina. Okkur hefur mætt mikill velvilji og áhugi hjá þeim sem leitað hefur verið til og jafnvel hefur verið leitað til okkar með að fá að aðstoða okkur. Það hafa margir lagt hönd á plóginn við undirbúning.
Þannig bauðst Sveinn Björnsson eigandi Flugþjónustunar til þess að gera flugplön fyrir okkur í þessu flugi til Englands og norðurlandanna, og sjá alveg um að plana fyrir okkur allan hringinn.
Ásbjörn Björnsson eigandi Fasa föt, bauð okkur að sauma einkennisbúninga í þeim stíl sem var á þessum tíma. Hann fékk lánuð einkennisföt hjá Smára Karlssyni sem var flugmaður í þessum fyrsta túr, og saumaði eftir þeim.
Þau fyrirtæki sem við leituðum til tóku vel á móti okkur, og veittu okkur styrki: Baugur Group veitir DC-3 Þristavinum peningastyrk. Við mættum miklum skilningi hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins á því verkefni sem við erum að fara taka þátt í og einnig á því sem við ætlum okkur að gera í framtíðini. Vonumst við eftir því að eiga við þá gott samstarf á komandi árum. Pokasjóður styrkir okkur einnig veglega með peningaframlagi. Boeing flugvélaverksmiðjurnar hafa einnig veitt okkur peningastyrk.Flugmálastjórn minnist 60 ára afmælis síns á þessu ári, að því tilefni fáum við peningaframlag frá þeim til þess að greiða yfirflugsgjöld í þessari afmælisferð okkar.
Öllum þessum aðilum færum við okkar bestu þakkir.
Starfsfólk Loftferðaeftirlitsins hefur veitt okkur mikla hjálp við undirbúning ferðarinnar, kunnum við þeim hinar bestu þakkir fyrir. Einnig færum við landbúnaðarráðherra sérstakar þakkir fyrir hans velvilja og áhuga á þristavinafélaginu.
Ólafur Ólafsson málarameistari sá um að mála vélina og gera hana svona glæsilega. Kunnum við honum og hans mönnum bestu þakkir fyrir.
Einnig þökkum við Birni Bjarnarsyni og hans mönnum, flugvirkjunum okkar þeim, Benedikt Sigurðsyni, Hannesi Thorarensen og Sigurði Sigurjónssyni fyrir frábært vinnuframlag við undirbúning vélarinnar fyrir athöfn þessa og ferðina út.
Verkefnin sem eru framundan hjá okkur eru að varðveita Pál Sveinsson og halda honum fljúgandi. Við ætlum okkur m.a. að dreifa áburði og grasfræi og halda vélini þannig fljúgandi. Til þess að það geti tekist verðum við að leita til fyrirtækja um stuðning við það verkefni og vonumst við eftir góðum viðbrögðum hjá þeim við að gera landið okkar ennþá fallegra og halda þristinum fljúgandi.
Mikil vinna er framundan í ISB, við að varna því að hún skemmist meira og síðan að endurbyggja hana. Stjórn DC-3 Þristavina hefur ákveðið að hefja endurbyggingu vélarinnar eins fljótt og auðið er og miðað er við það að vélin verði sett í flughæft ástand. Við erum að leita eftir húsnæði til að hýsa vélina á meðan á endurbygginguni stendur. Þar væri gaman að sjá sem flesta félagsmenn mæta og vinna við endurbygginguna og leggja þannig hönd á plóginn við varðveislu vélarinnar. Við stefnum að því að vinna við vélina geti hafist í haust.
DC-3 Þristavinir munu leggja ríka áherslu á áframhaldandi samvinnu og samstarf við Þristavinafélög á norðurlöndum, sem hefur verið öflugt og farsælt undanfarin ár þrátt fyrir að við höfum ekki stofnað formlegt félag hér fyrr en 3. mars á þessu ári.
Félagsmenn Félags íslenskra atvinnuflumanna munu fljúga vélinni áfram endurgjaldslaust eins og þeir hafa gert undanfarin 32 ár.
Góðir félagar – að lokum vil ég þakka ykkur fyrir þessi frábæru viðbrögð við stofnun DC-3 Þristavina, ég vonast eftir áframhaldandi stuðningi ykkar við varðveislu og endurbyggingu Þristana okkar.