Aðalfundur DC3 Þristavina
Skýrsla stjórnarformanns, Tómasar Dags Helgasonar, 16.apríl 2009
20. apríl 2009
Góðir félagar,
Ég vil byrja á því að minnast félaga okkar Benedikts Sigurðssonar flugvirkja sem féll frá á árinu 2008. Hann var mikill áhugamaður um gamlar flugvélar vann við Þristinn okkar, sem og aðra Þrista sem voru hér á landi í langan tíma. Hann vann einnig um borð og við margar vélar eins og Catalína, DC4 og DC6 svo eitthvað sé talið upp. Þristurinn var Benna afar kær sem sést best á því að ég fékk skilaboð frá honum skömmu áður en hann dó. Hann vildi fá að vita hvernig gengi að gera vélina klára fyrir flug um sumarið. Það var afar ánægulegt að fá að kynnast og vinna með manni eins og Benna.
Við skulum minnast hans með þögn.
Takk fyrir.
Við sendum einnig hlýjar hugsanir til Bóa, Gunnars Valgeirssonar flugvirkja sem hefur átt við vanheilsu að stríða nú um nokkurt skeið. Hann á langa og merka sögu varðandi aðkomu sína á þristinum okkar. Heilsist honum vel.
Ágætu félagar.
Meðlinir DC3 Þristavina eru nánast jafnmargir og í fyrra, rúmlega 600 eru skráðir í félagið en u.þ.b. 500 hafa greitt árgjald fyrir árið 2008. Við teljum það mjög gott þar sem við getum ekki gert eins mikið fyrir okkar félaga og við í stjórninni vildum. Ennfremur höfum ekki verið mikið áberandi á síðasta ári. Við þökkum þessa tryggð félaga okkar við Þristavinafélagið
Flugið á síðasta ári var ekki mikið, en samtals var flogið 15 tíma á síðasta ári. Þá er allt flug talið sem vélin flaug. Líkt og árið 2007 þá flugum við þegar óskað var eftir því eða við komum okkur á framfæri en í flestum tilfellum fengum styrktaraðila fyrir flugið. Líkur eru á að flug 2009 verði með sama hætt. Við teljum það afarmikilvægt að fljúga vélini á hverju ári þótt að flugið sé ekki meira en þetta. Vélini er þá haldið við og hún fær það viðhald sem hún þarf. Það er slæmt ef eitt ár dytti úr því það getur verið mikil vinna að koma henni í loftið aftur.
Fulltrúar stjórnar voru komnir á lokastig viðræðna við fjármálaráðuneytið, um að fá vélina afhenda, í lok september s.l. en þegar bankarnir hrundu þá vourm við að sjálfsögðu settir á bið og hefur ekkert gerst í þeim viðræðum síðan.
Vélin hefur verið geymd á Akureyri í vetur eins og veturninn 2007-2008. Sem er frábært fyrir okkur, það fer mjög vel um vélina og litið eftir henni daglega. Hugheilar þakkir til Flugsafns Íslands fyrir samstarfið.
Samstarf okkar við Norðurlöndin er með óbreyttum hætti. Fundur var haldinn í Helsinki í febrúar 2009. Það fóru 5 aðilar frá okkur til að taka þátt í fundinum, hann heppnaðist vel og var í lok hans undirritað formleg stofnun samnorræns Þristavinaklúbbs. En eins og ykkur er eflaust kunnugt um þá var undirrituð viljayfirlýsing um stofnun slíks kúbbs á fundinum sem var haldinn hér í fyrra. Klúbbur þessi er hugsaður til að koma fram fyrir hönd okkar, allra á Norðurlöndunum en við höfum þá samtals u.þ.b. 10.000 meðlimi.
Einnig til að taka á sameiginlegum málum og hjálpa hvor öðrum þegar á þarf að halda.
Kostnaður klúbbsins af þáttöku í þessum fundi var í algjöru lágmarki. Af þessum 5 aðilum sem fóru þá greiddi DC3 Þristavinafélagið ferðina frá KEF til HEL um STO fyrir einn aðila. Við sem vinnum / unnum hjá Icelandair greiddum miðann okkar til STO og Klúburinn á milli STO og HEL fyrir 2 aðila. Einnig greiddi klúbburinn hótel kostnað fyrir okkur í HEL í tvær nætur. Fyrsti fundur stjórnar í samnorrænum Þristaklúbbi verður haldinn í STO í byrjun Maí.
Fyrir áramót höfðu 4 nemar í Háskóla Reykjavíkur samband og vantaði efni í lokaverkefni þeirra í MBA námi í skólanum. Verkefnið á að vera rekstraráætlun fyrir nýtt félag, en þetta er liður í nýsköpun í atvinnulífinu. Þeir vildu þannig gera áætlun um breytingu á Páli Sveinssyni í farþegavél og rekstraráætlun vélarinnar í eitt ár eftir það. Verkefnið þarf að vera raunhæft og þeir þurfa því að ræða við alla hlutaðeigandi aðila til að ganga frá fjármögnun o.s.fv. þannig að það sé hægt að hrinda því beint í framkvæmd. Við þurftum þannig að eiga fund með FMS og Icelandair til að ganga frá málum þar og þeir fóru síðan á fund þeirra á eftir til að fara yfir málið með þeim. Þeir ræddu einnig við forsvarsaðila núverandi eiganda vélarinnar. Verkefnið þeirra verður tilbúið um miðjan maí og þeir eiga að verja það fyrir dómnefnd. Þetta mun nýtast okkur mjög vel, þeir ætla að gefa okkur verkefnið þegar þeir eru búnir með það. vonast er til að Icelandair muni koma að þessari beytingu með okkur í því formi að leggja til vinnu flugvirkja og eitthvað af innréttinu, sæti og hugsanlega fleira og verði okkar helsti styrktaraðili. Það verður spennandi að sjá niðurstöðu fjórmenninganna en þeir hafa lagt gríðarlega vinnu í þetta verkefni. Þetta mun síðan auðvelda okkur vinnuna þegar við förum í að afla fleiri styrktaraðila til verkefnisins. Það er þó ekki raunhæft að ætla að neitt gerist í breytingu á vélinni fyrr en árið 2010, þar sem við þurfum að fá vélina afhenta frá ríkinu áður en breytingar geta hafist.
Hugmyndin er að stofna ehf. sem DC3 Þristavinir á að fullu og það ehf. mun síðan eiga vélina. Sama og íþróttafélögin gera t.d. með rekstur á íþróttamannvirkjum.
Magnús Hjörleifsson í NY gaf okkur nýja talstöð í vélina. Við ætluðum að panta hana í gegnum fyrirtæki hans sem er staðsett í NY. Þegar hann heyrði af okkur og vissi hvað við erum að gera, ákvað hann að gefa okkur talstöðina. Við erum honum afar þakklátir fyrir þessa höfðinglegu gjöf, en við höfðum reiknað með að eyða u.þ.b. 9.000.$ í talstöðina, intercom og ný heyrnatól. Heyrnartólin eru það eina sem við þurftum að kaupa.
Núna eru Sigurður P. Sigurjónsson og Karl Hjartarson á AEY að leggja loka hönd á að setja talstöðina í vélina – þökkum þeim frábært framlag – nú eins og ótal sinnum áður.
Einnig er verið að vinna að því að gera vélina klára fyrir sumarið. Búið er að senda eina loftskrúfu vélarinnar til yfirferðar í USA en hún kemur til baka í lok apríl mánaðar. Icelandair Cargo gefa flutningskostnaðinn – ekki ónýtt að eiga slíka hauka í horni.
Við eigum þrjár skrúfur á vélina getum því haft báðar á vélini á meðan verið er að yfirfara þá þriðju. Við þurfum að skipta um eina loftskrúfu fyrir lok maí. Verið að kanna hvort það séu fleiri atriði sem þarfnast reglubundinna skoðana. Fyrihuguð er ferð til Akureyrar um helgina 1. til 3. maí til að gera skoðun á vélini fyrir sumarið. Kristján Tryggvason tæknistjóri okkar og Birkir Halldórsson flugvirki stýra þessari vinnu og fá til liðs við sig flugvirkja til að fara með norður. Þeir sem fara þangað gera það í sjálfboðavinnu og leggja þannig mikilvæg lóð á vogaskálina um að okkur takist að halda vélinni fljúgandi áfram. Það er frábært að sjá þennan mikla áhuga hjá flugvirkjum að halda vélini áfram í flughæfu standi. Við kunnum þeim að sjálfsögðu okkar bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Það sem þeir geta ekki gert fyrir norðan þá munum við leita til Icelandair með að aðstoða okkur við að klára skoðunina. Icelandair hefur hjálpað okkur við viðhald vélarinnar eins og við höfum þurft frá stofnun DC3 Þristavinafélagsins, í þessi ár hefur það alltaf verið endurgjaldslaust.
Það er frábært fyrir okkur að geta unnið við vélina í Flugsafni Íslands, þar er góð aðstaða til þess að vinna við hana. En segja má að flugvirkjarnir fari í nokkurskonar vinnubúðir þegar þeir fari norður til þess að gera skoðun á vélini. Við gætum þetta náttúrlega ekki ef við nytum ekki stuðnings “norðan manna” þ.e. forsvarsmönnum Flugsafns Íslands, flugvirkja á Akureyri og annara velunnara okkar á staðnum. Flugfélag Íslands styrkir okkur einnig með lágu fargjaldi hlutaðeigandi aðila. Öllum þessum aðilum erum við afar þakklátir fyrir þeirra þátt í því að hjálpa okkur við að halda vélini á flugi og varðveita hana.
Varðandi ISB þá er skemmst frá því að segja að ekkert hefur verið unnið við hana. Hún stendur ennþá inní geymsluhúsnæði á Keflavíkurflugvelli, endurgjaldslaust og kærar þakkir fyrir það. mest er um vert að veður og vindar eru allavega ekki að vinna á henni að svo stöddu. Við höfum verið að beina kröftum okkar að því að halda NPK fljúgandi frekar en að gera eitthvað við ISB. En við vonum það að hennar tími muni koma, síðar.
Varðandi flug í sumar þá lítur út fyrir að það verði með hefðbundnu sniði. Gaman væri þó að fljúga hringinn í kringum landið aftur eins og við gerðum árið 2003 þegar vélin varð 60 ára. Til þess að það takist þá þurfum við að finna öfluga styrktaraðila, einn eða fleiri. Við teljum það afar mikilvægt að hafa vélina sýnilega um allt land. Einnig gæti opnast möguleiki fyrir okkur að fljúga með meðlimi félagsins og þeir taki þátt í kostnaði við flugið. Það væri hægt að hugsa sér u.þ.b. 15 til 20 mín flug og kostnaðarhlutdeild hvers væri 10.000.-kr fyrir slíkt flug. Þetta þarf þó frekari skoðunar við áður en það kæmi til framkvæmda, en Flugmálastjórn myndi ekki gera athugasemd við þetta fyrirkomulag. Við munum segja frá þessu á heimasíðu okkar ef af þessu verður.
Skemdarverk voru unnin á vélini síðast liðið haust, eins og ykkur er eflaust kunnugt um. En stél vélarinnar var sprautað með svokölluðu veggja kroti, graffiti. Okkur tókst að heinsa þetta af vélini, með góðri aðstoð starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands, án þess að vélin skemdist. Við fengum að setja vélina inn í skýli hjá Landhelgisgæslunni og þeir lánuðu okkur tæki og tól til að hreinsa vélina. Starfsfólkið hjálpaði okkur við hreinsunina en við enduðum á því að þvo hana alla fyrir veturinn. Ég þakka starfsfólki Landhelgisgæslu Íslands kærlega fyrir þeirra hjálp.
Okkur stendur til boða húsnæði sem er í eigu félags sem Ólafur Ólafsson á. Við munum nota þetta sem geymsluhúsnæði undir varahlutina og aðra hluti sem fylgja rekstrinum. Við höfum geymt þá á Ólafsvöllum í Elliðaárdal frá stofnun félagsins. Við fáum þetta húsnæði endurgjaldslaust en greiðum 10.000.-kr í rafmagn og hita á mánuði. Þetta húsnæði er í porti N1 á Gelgjutanga, en í húsnæðinu var áður verslun N1. Það er í einu orði sagt stórkostlegt að vera komnir með varahlutina okkar aftur í upphitað húsnæði, en eins og ykkur er eflaust kunnugt um þá var hitinn tekin af Ólafsvöllum síðastliðið haust. Ólafsvellir eru því alls ekki viðunandi geymsluhúsnæði fyrir þá hluti sem fylgja okkur. Við munum flytja í þetta húsnæði innan skamms gott væri ef einhverjir hér gætu aðstoðað okkur við það. Við þurfum að setja bílskúrshurð í op sem til staðar, en við verðum að hafa stærri hurð en þar er til að gott aðgengi verði að aðstöðuni. Ef einhverjir hér geta hjálpað okkur við þetta þá endilega gefið ykkur fram við einhvern stjórnarmanna eftir fundinn. Við erum mjög þakklátir fyrir þann velvilja sem félaginu er sýndur með þessu framlagi, en við munum skrifa undir tveggja ára samning á næstu dögum.
Styrktaraðilar okkar eru, eins og undanfarin ár, Icelandair en þeir eru okkar stærstu styrktaraðilar. Þeir hjálpa okkur með viðhald sjá um tryggingar fyrir okkur og styrkja okkur með bensín í nokkur flug. Á síðasta ári þá styrktu okkur einnig þeir Magnús Hjörleifsson eins og áður er getið og Arngrímur Jóhansson sem styrkti félagið á margvíslegan hátt. Einnig öll þau félög sem við flugum fyrir á síðasta ári með því að greiða fyrir okkur eldsneyti til að hægt væri að fljúga. Flugfélag Íslands veitir okkur ómetanlegan styrk í formi farseðla okkar sjálfboðaliða við skoðun vélarinnar á Akureyri og flugmanna þegar við förum með véllina til og frá Akureyri. Landgræðsla ríkisins hefur sýnt okkur mikinn velvilja og stutt okkur með ýmsu móti.
Tveir menn hætta í stjórn núna að eigin ósk, en þeir hafa setið í stjórn frá stofnun DC3 Þristavinafélasins í mars 2005. Þetta eru þeir Leifur Magnússon og Guðmundur Hagalín ég vil þakka þeim fyrir samstarfið og þeirra frábæru störf í þágu félagins.
Ég vonast til að fundarmenn tjái sig um þessa skýrslu stjórnarinnar um starfsemi félagsins á starfsárinu, þar sem ég hef aðeins stiklað á helstu atriðum starfseminnar.
Takk fyrir.