15. maí 2007
Góðir félagar,
Nú er öðru starfsári DC-3 Þristavinafélasins lokið, það var öllu rólegra heldur en fyrsta árið hjá okkur.
Fjöldi félagsmanna
Í dag eru u.þ.b 620 félagar í Þristavinafélaginu sem er svipuð tala og á árinu 2005.
Verkefni Páls við landgræðslu
Páll Sveinsson dreifði 75 tonnum af áburði í maí 2006. Það lítur út fyrir að þetta hafi verið síðasta vorið sem vélin var notuð til uppgræðslu. Við leituðum til 30 fyrirtækja um stuðning við landgræðsluflugið. Undirtektir voru dræmari en við áttum von á, margir tóku okkur vel í byrjun en örfáir aðilar sáu sér fært að styðja við okkur í þessu máli. Guðrún Hagalínsdóttir sá um að leita til fyrirtækja fyrir okkur. Hún bæði skrifaði til þeirra og fylgdi því svo eftir með símtölum en það skilaði litlum árangri eins og ég sagði áðan. Við kunnum Guðrúnu bestu þakkir fyrir hennar vinnu í þessu, en hún gerði þetta fyrir okkur í sjálfboðavinnu. Olís styrkti okkur með ríflegum afslætti á því bensíni sem við notuðum á síðasta ári.
Í framhaldi af þessu ákvað stjórnin að vélin yrði ekki notuð til áburðardreifingar meira, þar sem það fylgir því töluverður kostnaður að undirbúa flugið og þrif á vélinni eftir að fluginu er lokið.
Þátttaka í hátíðahöldum
Á árinu 2006 tók Páll Sveinsson þátt í 60 ára afmæli Reykjavíkurflugvallar, þar sem hún stóð við skýli FMS og skapaði þá stemmingu sem var verið að leita eftir á þessum tímamótum. Henni var svo flogið í lok dagsins.
Í framhaldi af því var farið með vélina til Akureyrar og hún látin standa við Flugmynjasafn Íslands í viku tíma eða svo eins og árið á undan.
Þátttaka í flugdegi í REK
Flugmálafélag Íslands hélt flugdag á Reykjavíkurflugvelli og Páll tók að sjálfsögðu þátt í honum. Nokkur önnur flug voru farin á síðasta ári en öll í tengslum við einhverskonar uppákomur m.a. var Þýsk sjónvarpstöð sem kom hingað til lands og farið var í flug með þá og notkun vélarinnar gerð nokkuð góð skil í þeim sjónvarpsþætti sem þeir voru að gera um Ísland. Þess á milli stóð vélin úti á Reykjavíkurflugvelli þar sem gestir og gangandi gátu séð hana, og óhætt að segja að hún hafi vakið nokkra athygli þar.
Opið hús
Þrisvar sinnum héldum við opið hús fyrir félagsmenn okkar tvisvar á Ólafsvöllum og einu sinni í skýli nr 3 á Reykjavíkurflugvelli þar sem félagsmönnum gafst kostur á að skoða báðar vélarnar. Það var vel mætt þegar við héldum opna húsið á Reykjavíkurflugvelli en hefði verið gaman að sjá fleiri á Ólafsvöllum. Við reiknum með að halda þessu áfram þó það verði aðallega á Ólafsvöllum þar sem við höfum nú misst þá aðstöðu sem við höfðum í skýli nr 3 á Reykjavíkurflugvelli.
Húsnæðismál
Við urðum að fara með vélina til KEF í nóvember þar sem flugvallaryfirvöld á Reykjavíkur flugelli þurftu að nota allt skýlið og leigutökum var sagt upp bæði okkur og Flugfélagi Íslands. FMS ætlar að gera skýlið upp og endurleigja það til Flugþjónustunar eftir því sem ég best veit. Jón Baldvin flugvallarstjóri í REK var okkur innanhandar með að útvega okkur húsnæði fyrir vélina í KEF. Kollegi hans í KEF Björn Ingi Knútsson tók vel á móti okkur þegar við komum með vélina þangað og bauð okkur pláss í skýli 885. Það er stærsta skýlið á KEF flugvelli sem herinn átti. Vélin okkar var eina vélin þar inni nánast allan veturinn en einnig notaði Icelandair skýlið í nokkra daga. ISB var hinsvegar áfram geymd í skýli nr 3 á REK flugvelli. Nú í maí var komið að því að steypa gólfið í skýli nr 3 og þá þurftum við að taka ISB þaðan líka. Vængirnir af henni fóru til KEF í skýli þar en skrokkurinn stendur úti fyrir austan skýli nr 3 á REK flugvelli. Það er ljóst að hún fer ekki aftur þar inn og við þurfum að finna lausn á húsnæðisvanda vélarinnar. Við óttumst að veður og vindar munu vinna mjög fljótt á vélinni og skemma hana frekar ef hún þarf að standa lengi úti. Hugmyndir hafa verið uppi um að fara með hana til KEF en það eru ýmsir vankantar á því aðallega varðandi flutning á vélinni þangað. Það væri gott að heyra hugmyndir ykkar í því hér á eftir undir liðnum önnur mál, en við munum ræða þetta frekar þar.
Björn Ingi gat eingöngu lofað okkur húsnæði í vetur, fyrir Pál Sveinsson, þannig að við erum á hrakhólum með vélina næsta vetur en ég veit þó fyrir víst að Björn Ingi mun gera allt sem hann getur fyrir okkur til að koma henni aftur inn í KEF.
Breyting á vélinni í farþegavél
Í framhaldi af því að stjórnin ákvað að áburðarflugi væri hætt þá var ákveðið að breyta vélinni í farþegaflugvél aftur. Stjórnin hefur unnið að því að gera kostnaðaráætlun og fá styrktaraðila til liðs við okkur. Við ræddum við Icelandair um að þeir myndu koma í málið með okkur og fá ITS til að annast verkið. Flugvirkjar ITS hafa mikið að gera við að skoða flugflota Icelandair og sinna öðrum verkefnum sem ITS tekur að sér. Það varð því fljótlega ljóst að verkefnastaða ITS væri þannig að þeir gætu ekki annast þetta verk fyrir okkur fyrir sumarið 2007. Við munum halda þessari vinnu áfram og reyna að fjármagna þessa breytingu.
Þegar því er lokið þá munum við skoða alla möguleika í því að láta breyta vélinni, við munum skoða möguleika bæði hér heima og erlendis í því sambandi. Við þurfum að finna fjársterka aðila sem vilja koma í þetta verkefni með okkur, ef þið vitið um einhverja slíka þá endilega látið okkur vita.
Við í stjórninni teljum afar mikilvægt að það takist að breyta vélinni aftur í farþegavél, það sé spurning um það hvort okkur tekst að halda Páli fljúgandi eða ekki. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að geta flogið með okkar meðlimi til að halda félaginu gangandi og það geti vaxið og dafnað.
Við höfum rætt við FMS um þetta mál bæði breytinguna sjálfa og að við hyggjumst fljúga með farþega á vélini sem munu taka þátt í kostnaði við flugið og þannig gera okkur kleift að fljúga vélinni áfram. Við höfum mætt miklum velvilja og skilningi hjá þeim og skemmst frá því að segja að þeir hafa skoðað málið og lýst því yfir að þeir munu hjálpa okkur til að gera þetta kleift. Með hvaða hætti það verður er ekki ljóst á þessari stundu en málið er í vinnslu.
Samvinna Þristavinafélaganna á norðurlöndunum
Það var haldinn samnorrænn Þristavinafundur í Torp í Noregi í febrúar síðastliðinn. Það voru fjórir félagsmenn frá okkur sem fóru þangað. Það mættu félagar frá öllum norðurlöndunum líkt og í Danmörk í fyrra, auk þess var annar aðili frá Svíðþjóð sem rekur einn þrist þar til útsýnisflugs. Við skiptumst á upplýsingum varðandi síðasta sumar og hugmyndir um framhaldið. Þar kom fram að allir eru sammála um mikilvægi þess að hittast svona og fara yfir málin. Það gengur misvel hjá okkur og ýmis vandamál sem einn klúbburinn á í sem aðrir eru búnir að lenda í og geta þá leiðbeint hinum með. Það var ákveðið að tala við fólk í höfuðstöðvum Shell í Kaupmannahöfn og freista þess að fá afslátt á bensíni fyrir alla klúbbana. Einnig að athuga með tryggingar að reyna að fá sameiginlega tryggingu á allar vélarnar. Við og Svíarnir erum í sömu stöðu með tryggingarmál þ.e. að Icelandair sér um tryggingu fyrir okkur og SAS um tryggingu fyrir þá. Vélarnar eru tryggðar hjá sama aðila.
Ákveðið var að næsti fundur verði haldinn hér á landi árið 2008, það er ekki búið að tímasetja hann endanlega en væntanlega verður hann í febrúar eða mars. Ef þið vitið um einhvern vanan sem hefur skipulagt ráðstefnur sem þessar og væri tilbúinn að hjálpa okkur við undirbúninginn þá endilega látið okkur vita.
Það sem er framundan
Hvað er framundan hjá okkur. Þó að við dreifum ekki áburði í sumar þá munum við fljúga vélinni eitthvað.
Aðal flugið verður væntanlega fyrir Icelandair í tilefni af 70 ára afmæli félagsins. Það liggur ekki fyrir hvað það verður mikið en það sem er fyrirhugað er hér innanlands. Icelandair er okkar aðalstyrktaraðili nú sem og í fyrra. Þeir munu sjá um að tryggja vélina fyrir okkur í sumar eins og í fyrra. ITS mun skoða vélina fyrir okkur fyrir sumarið þeir hafa tekið vel í að það verði okkur að kostnaðarlausu. Þannig að Icelandair mun sjá um alla stærstu kostnaðarliðina þetta árið fyrir okkur. Við erum þeim afar þakklátir fyrir það, að stuðla þannig að því að við getum flogið vélinni áfram.
Okkur hefur verið boðið að koma með vélina á flugsýningar bæði í Stavanger í Noregi þann 3 júní og til Hamborgar á Hamburg airshow sem verður um miðjan september. Við komumst ekki til Stavanger þar sem við verðum að fljúga fyrir Icelandair hér heima á sama tíma. Ég á ekki von á því að við förum til Hamborgar heldur. En af þessu sjáum við að vélar sem þessar eru eftirsóttar á flugsýningum og þá helst að hafa þær sem flestar saman komnar á sama stað og tíma. Það er um langan veg fyrir okkur að fara með vélina til Evrópu og það væri því best fyrir okkur að fara og taka þátt í nokkrum flugsýningum í sömu ferðinni.
Karl Hjartarson hefur tekið við heimasíðunni hjá okkur. Hann ætlar að reyna að gera hana meira lifandi heldur en hún hefur verið undanfarið það myndi hjálpa honum mikið ef félagar myndu senda honum efni til að setja inná síðuna eða jafnvel ef það er einhver sem vildi sjá um síðuna með honum.
Við stöndum á ákveðnum tímamótum núna þar sem hætt hefur verið að nota vélina til áburðarflugs, það ríður því á að við stöndum saman að þeim breytingum sem við þurfum að gera á vélinni til þess að hún geti flogið áfram.
Páll Sveinsson hefur verið notaður til uppgræðslu örfokalands síðastliðin 33 ár. Eins og staðan er núna þá lítur út fyrir það að því hlutverki hans sé lokið. Við Þristavinir erum þakklátir Landgræðslu Ríkisins fyrir að hafa haldið vélinni gangandi og notað hana í öll þessi ár. Ég fullyrði það hér að ef Flugfélag Íslands hefði ekki gefið Landgræðslunni vélina og félagsfundarsamþykkt í FÍA sem þeir Skúli Brynjólfur Steinþórsson og Dagfinnur Stefánsson stóðu að, um að félagsmenn FÍA myndu gefa vinnu sína við að fljúga vélinni við uppgræðslu, ættum við ekki flughæfan Þrist hér á landi.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Landgræðslustjóra Sveini Runólfssyni fyrir farsælt samstarf síðastliðin 11 ár, sem ég hef starfað sem flugrekstrarstjóri Landgræðslunnar, við að halda vélinni gangandi. En því samstarfi er hvergi lokið við ætlum að halda henni fljúgandi áfram um mörg komandi ár.
Takk fyrir