30. október 2012
Sælir félagar.
Það er helst að frétta að vélin er komin í vetrarhýðið sitt á flugsafninu á Akureyri. Erling Andreassen flugvirki fór norður í byrjun mánaðarins og undir hans stjórn var vélinni komið inn á safn. Það er talsverð vinna að koma svona vél inn á safn. Það þarf að færa aðrar vélar fram og til baka koma síðan þristinum inn þannig að vel fari um hana og ekki síður að aðrar vélar séu aðgengilegar fyrir safngesti.
Eftir sumarið langar mig að koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu sem aðstoðuðu Þristavinafélagið með vélina. Ég get seint búið til tæmandi lista en ætla að minnast á nokkra: Flugfélag Íslands, Flugleiðir, ITS í Keflavík, Flugfélagið Ernir, Flugþjónustan Reykjavíkurflugvelli, Flugsafnið á Akureyri, Vegagerðin, Isavia oflr. Þessir aðilar aðstoðuðu félagið með einum eða öðrum hætti í sumar. Þökk sé þeim. Og ekki síst flugmennirnir sem flug vélinni í sumar og svo ekki sé minnst á Erling Andreassen flugvirkja sem er vakinn og sofinn vegna vélarinnar.
Í haust var farið í tiltekt á Ólafsvöllum og var það mikið átak. Það fylltist heill ruslagámur og geymslan þar lítur miklu betur út. Í þeirri geymslu er nú allt það sem þolir óupphitaða geymslu en annað er komið niður á Gelgjutanga þar sem aðallagerinn er. Enn á eftir að fara austur í Gunnarsholt og kom því sem þar er eftir til Reykjavíkur og verður það verkefni vetrarins.
Með félagskveðju, Karl Hjartarson