29. desember 2013
Sælir félagar.
Tek mér það bessaleyfi að segja hér eina smásögu þar sem þristurinn kemur við sögu. Saga þessi gerist rétt fyrir jólin 1963. Fjölskylda mín bjó þá á Egilsstöðum en ég gékk í skóla í Reykjavík. Á þessum árum var flogið tvisvar í viku til Egilsstaða, þriðjudaga og föstudaga. Strax um haustið pantaði ég mér far austur til að vera viss um að komast heim fyrir jólin. Þegar svo kom að því að fara heim,sem var á föstudegi,var veður vont og að endingu var fluginu frestað og mér sagt að athuga morguninn eftir klukkan níu. Samviskulega hringdi ég klukkan níu en þá var mér sagt að vélin hafi farið klukkan átta. Ég var gráti nær og eftir nokkra stund sagði kona sú sem ég talaði við í símann að það færi önnur vél um hádegið með póst og vörur og ekki væri ómögulegt að ég fengi að fara með þeirri vél. Best væri að koma út á flugvöll til að athuga málið sem og ég gerði. Er skemmst frá því að segja að einhver starfsmaður sem hafði með hleðslu á vélinni að gera, sagði það af og frá að farþegi fengi að fara með. Við þessar fréttir settist ég fram í afgreiðslusalinn og hef líklegast verið volandi. Kom þá Ingimar Sveinbjörnsson flugmaður aðvífandi og spurði mig hvað eiginlega væri að. Ég sagði honum hvað að væri og að einhver þarna vildi ekki hleypa mér með fragtvélinni. “Blessaður vertu ekki að vola þetta” sagði Ingimar, skrifaði eitthvað á miða og rétti mér. Þetta reyndist vera símanúmer og hann sagði að þetta væri númerið hjá forstjóranum og ég skildi bara hringja í hann og kvarta. Þarna var ég auminginn aðeins 15 ára feiminn og óframfærinn og hélt að ég myndi deyja en hafði mig samt að síma og hringdi. Kona svaraði símanum og ég stundi upp hvort ég gæti fengið að tala við forstjórann. Hann kom í símann og ég sagði honum alla söguna. Hann bað mig að vera alveg rólegan því svona gerði flugfélagið ekki. Það yrði haft samband við mig og þannig lauk símtalinu. Stuttu seinna var nafn mitt kallað upp og þegar ég kom að afgreiðsluborðinu tók á móti mér brosandi afgreiðslukona en öskureiður maður á bak við hana sem krafðist þess að fá að vita hver hefði sagt mér að hringja í forstjórann. Ég stundi upp að engin hafi sagt mér að hringja en ég hafi talið að úr því að félagið hafi klúðrað því að ég kæmist heim þennan morgun taldi ég víst að forstjórinn hlyti að geta bjargað því að ég kæmist með fragtvélinni. Reiði maðurinn hreytti því þá í mig að ég færi með vélinni. Og úti fyrir stóð þessi líka gullfallegi þristur sem ég var leiddur inní. Ég fékk að sitja í svokölluðu “jump” sæti og hver annar en Ingimar Sveinbjörnsson og annar sem ég kann ekki nafnið á flugu vélinni austur. Þessari flugferð gleymi ég aldrei, gullfallegt íslenskt vetrarveður, lágflug með staðarlýsingum um fjallasalina og heim komst ég til fjölskyldunnar þessi jólin.
Vona að einhver hafi haft gaman að þessari sögu. Jóla og áramótakveðja, Karl Hjartarson