FUNDARGERÐ AÐALFUNDAR 2012

2. maí 2012

Þristavinir

Mynd: Baldur Sveinsson

Góðir félagar,

Nú er 7. starfsár félagsins að baki og er það að mörgu leiti líkt hinum árunum sem við höfum verið að reka Þristinn.

Það eru u.þ.b. 560 félagar skráðir í félagið, en u.þ.b 420 hafa greitt félagsgjaldið fyrir 2011. Það er í sjálfu sér lítil afföll ef miðað er við hvað við getum lítið gert ennþá fyrir okkar félagsmenn. Þegar mest var þá voru rúmlega 600 félagsmenn sem greiddu félagsgjaldið. Þeim hefur síðan fækkað jafnt og þétt. Við þurfum að snúa þessari þróun við, en að mínu mati mun það ekki gerast fyrr en við förum að bjóða okkar félagsmönnum upp á flug með vélinni. Það hillir undir það, en meira um það síðar.

Nú er Páll Sveinsson ekki lengur í eigu ríkisins, eins og verið hefur síðan 1972, þegar FÍ gaf vélina til Landgræðslu ríkisins. Í byrjun ársins 2011 var stofnuð sjálfseignarstofnun sem heitir Þristasjóðurinn. Ríkið gaf síðan vélina inn í þennan sjóð þannig að vélin á sig sjálf núna. Það er þriggja manna stjórn í Þristasjóðnum, Tómas Dagur Helgason formaður, Sveinn Runólfsson er ritari og Hrafnhildur Þorvaldsdóttir er gjaldkeri, en hún kemur frá umhverfisráðuneytinu. Færsla vélarinnar frá ríkinu var forsenda þess að Icelandair myndi koma að breytingu á vélinni með okkur. DC3 Þristavinir er rekstraraðili vélarinnar áfram eins og verið hefur. Það koma engir fjármunir frá Þristasjóðnum, DC3 Þristavinir sjá um allan rekstur og Þristasjóðurinn má ekki selja vélina.

Nú teljum við að það sé tími til að halda áfram og taka næsta skref í að breyta vélinni. Icelandair er tilbúið til að vinna að því með okkur. Fyrir viku fóru aðilar frá ITS ásamt Erlingi Andreassen, flugvirkja okkar, til að skoða vélina og meta hvað það væri mikil vinna að taka tankinn úr henni. Búið er að ákveða að vélin fari inn í skýli hjá ITS í byrjun júní. En fyrst verður tankurinn tekinn úr og vélin gerð flughæf og framhaldið síðan metið. Það verður hægt að meta það betur þegar tankurinn er kominn úr. Unnið er að því að fá heimild til verksins hjá FMS, búið er að kynna þeim þetta plan og þeir hafa tekið vel í það. Sótt verður um formlega heimild til þeirra fljótlega. Innrétting og sæti fylgja vonandi fljótlega. Við tökum eitt skref í einu – og færum Icelandair alúðarþakkir, fyrir hvert skref fram á við.

Icelandair heldur upp á 75 ára afmæli sitt nú á þessu ári. Við vonumst til að fljúga eitthvað fyrir ICE í tilefni afmælisins. Það hefur þó ekki verið gengið frá því ennþá hvort og þá hvað það verður. Flugdagur verður í Reykjavík 26. maí í tilefni afmælisins, einnig verður afmælisins minnst á Akureyri í byrjun Júní.

Páll Sveinsson flaug u.þ.b. 15 klst. á síðasta ári, það er að sjálfsögðu allt of lítið. Bæði fyrir vélina, flugmennina og flugvirkjana. Við flugum á flugsýningum á Akureyri og í Reykjavík. Vélin fór í Múlakot og á Hellu síðan var flogið nokkrum sinnum fyrir fallhlífastökkvara.

Nýlunda var að á síðasta ári tókum við þátt í æfingu Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, þar sem við hentum út björgunarbúnaði ásamt því að nokkrir fallhlífastökkvarar stukku úr vélini. Þetta er skemmtileg viðbót við það sem við höfum gert undanfarin ár. Að sjálfsögðu hefur líka verið stokkið fallhlífarstökk úr vélini á þeim flugsýningum sem við tókum þátt í. Það er mjög takmarkað hvað við getum gert með vélina á meðan við höfum ekki sæti í henni og getum því ekki boðið upp á „útsýnisflug“ líkt og félagar okkar á Norðurlöndunum gera. Hver ferð myndi þannig borga sig. Eins og er, þurfum við styrktaraðila fyrir hvert flug.

Á síðasta ári blésum við lífi í sölu á ýmsum varningi á vegum Þristavinafélagsins, aðallega þó bolum og húfum. Það skilaði góðum árangri og við ætlum að styrkja þennan þátt í starfi okkar. Til að byrja með verður þetta þó aðallega selt á flugsýningum og öðrum mannamótum, þar sem vélin mun standa.

Það eru 4 flugvirkar sem vinna við vélina á svokölluðum „day to day basis“ . ITS hefur framkvæmt þær skoðanir sem okkar félagar hafa ekki getað klárað á Akureyri. Vélin fer því á hverju sumri inn í skýli hjá ITS. Það er ekkert stórt sem þarf að skoða núna í reglubundnu viðhaldi. Breytingin á vélinni verður það stærsta sem gert verður við vélina þetta sumarið. Enda mikil vinna og undirbúningur til að hrinda því í framkvæmd.

Eins og undanfarin ár þá eru u.þ.b. 12 flugmenn með réttindi á vélina. Við þurfum hinsvegar að þjálfa yngri flugmenn þegar búið er að breyta vélinni, til að viðhalda þekkingu flugmanna við að fljúga henni. Þetta þarf að gerast áður en þeir sem eldri eru hætta að fljúga vélinni. Þið hafið heyrt mig tala um þetta oft áður. En þetta er eitthvað sem við verðum að hrinda í framkvæmd, eins er brýnt að fá yngri flugvirkja til að taka réttindi á vélina til þess að viðhalda þekkingunni hjá þeim. Þegar vélin er inn í skýli hjá ITS þá eru ungir aðilar að vinna í vélinni með þeim sem eldri eru. Það er gaman að sjá hvað þeir hafa mikinn áhuga á vélinni og að vinna við hana. Við bindum því vonir við að einhverjir af þessum mönnum muni vilja koma að þessu nýja verkefni með okkur.

Eins og þið vitið þá fengum við aðstöðu á Gelgjutanga fyrir varahlutalager okkar. Við höfum verið með húsnæði í gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal. Erum reyndar ennþá með þá aðstöðu, en enginn hiti er í því húsnæði. Við erum að vinna í því að flytja alla varahluti úr Gunnarsholti til Reykjavíkur. Skrásetja það sem við eigum og fara í gegnum það hvað er til og hvað er hægt að nota. Þessu verki miðar áfram, en við ætluðum helst að klára það fyrir sumarið 2012. Allt aðgengi í varahlutina verður þannig auðveldara og á hreinu hvað við eigum og hvort við getum notað það.

Við vonumst til að fljúga meira nú í sumar en á síðasta ári, þó ekki sé mikið fast í hendi á þessari stundu. Jafnframt vonumst við til að vélin verði eitthvað inn í skýli í breytingum í farþegavél. Kannski er þetta þversögn en við erum þó búnir að læra það að það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn í þessum bransa!! Við ætluðum að þjálfa flugmann fyrir Dani í fyrra en ýmislegt kom í veg fyrir það. Nú stendur til að reyna að klára það í maí.

Eins og undanfarin ár þá erum við í góðu samstarfi við Flugsafn Íslands á Akureyri. Vélin er inn í safninu yfir veturinn, yfir sumarið stendur hún fyrir utan safnið þegar hún er fyrir norðan. En að sjálfsögðu er hún einn af munum safnsins. Þetta samstarf er okkur afar mikilvægt og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir frábært samstarf á undanförnum árum.

Við fórum nokkrir félagar á Norræna Þristavinafund, NDA, sem haldinn var í Kaupmannahöfn 24. mars s.l. Það er mjög gott fyrir okkur að sækja fundi sem þennan, þar sem við förum yfir sameiginleg málefni. Ef eitthvert félag á í vandamálum þá er hjálpast að við að finna lausn á þeim. Það er einn aðili frá hverju Norðurlandana í stjórn NDA. Tómas Dagur Helgason situr þar fyrir okkar hönd. Ég ætla ekki að lengja mál mitt hér með því að fara yfir fundinn, en úrdrátt úr honum er hægt að finna á heimasíðu okkar. Það hafa verið fundir í þessum félagsskap á hverju ári í mörg ár, en fundurinn 2010 féll þó niður vegna eldgosins í Eyjafjallajökli. Ákveðið var á þessum fundi að hittast annað hvert ár. Næsti fundur verður því í Sandefjörd í Noregi, árið 2014.

Sem fyrr er Icelandair okkar helsti styrktaraðili. Önnur félög sem styrkja okkur og tengjast Icelandair eru ITS, Loftleiðir Icelandic og Flugfélag Íslands. Við fengum einnig styrk á síðasta ári frá Innanríkisráðuneytinu. Svo að sjálfsögðu styrkja okkur þau fyrirtæki sem við fljúgum fyrir af mismunandi tilefnum. Primera Air gaf okkur viðhaldsbækur sem okkur vantaði fyrir vélina.

Ég færi þeim öllum bestu þakkir fyrir ómetanlegan stuðning.

Að lokum færi ég meðstjórnendum mínum bestu þakkir fyrir frábært samstarf og stuðning.

Takk fyrir.

Tómas Dagur Helgason, formaður.

Nýjustu fréttirnar

Saga Gunnarsholts

Sveinn Runólfsson, fyrverandi Landgræðslustjóri og varaformaður Þristavinafélagsins, hefur skrifað bók um sögu Gunnarsholts....

Lesa frétt

SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA ÞRISTAVINA

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.