FUNDARGERÐ AÐALFUNDAR 2006

Aðalfundur DC3 Þristavina

Haldinn á Hótel Loftleiðum fimmtudaginn 27. apríl 2006

8. maí 2006

Tómas Dagur Helgason formaður Þristavinafélagsins setti þennan fyrsta aðalfund í sögu félagsins. Hann stakk upp á fundarstjóra Jóni Kristni Snæhólm sem var samþykktur með lófataki.

Jón tekur til máls, hann þakkar fundarmönnum traustið og býður menn velkomna á fundinn. Hann mælti fyrir því að Stefán Davíð Helgason yrði kjörinn ritari fundarins og var það samþykkt með lófataki.

Fundarstjóri les upp dagskrá fundarins
    1.    Kosning fundarstjóra og ritara
    2.    Skýrsla stjórnar
    3.    Reikningar lagðir fram til samþykktar
    4.    Flugið á árinu 2006
    5.    Framtíð TF – ISB
    6.    Ákvörðun um árgjald
    7.    Önnur mál

2) Skýrsla stjórnar


Tómas Dagur tók til máls, byrjaði hann á að bera fundinum góða kveðju frá Sveini Runólfssyni Landgræðslustjóra sem átti ekki heimangengt á fundinn. Því næst fór hann yfir starfsemi félagsins á árinu 2005. Sagði hann að félagið teldi 630 félagsmenn sem er nokkuð góður árangur en taldi að hægt væri að fjölga þeim enn frekar og hvatti fundarmenn til að fá vini og ættingja til að ganga inn í félagið.

Tómas fór nokkrum orðum um ferðina sem var farin á Páli Sveinssyni til Evrópu sumarið 2005 og taldi hana hafa verið vel heppnaða í alla staði. Vélin hafi vakið mikla athygli hvar sem hún kom, fjallað var um hana í 15 fagtímaritum. Nefndi hann að flognar hefðu verið 24 klst samtals, að 10 flugmenn hafi flogið og 1 flugvirki fylgt vélinni. Benti hann fundarmönnum á heimasíðu þristavinafélagsins til frekari upplýsinga um flugið.

 Þá taldi hann upp alla þá styrktaraðila sem gerðu þessa ferð, sem og ferðir til Akureyrar, Hellu og flug yfir fjölskylduhátið FL group mögulegar.

Tómas sagði að tryggingar væru mjög dýrar, um 2.000.000 kr á síðasta ári, og að þær væru þungur baggi fyrir félagið. Nefndi að þau mál væru til athugunar og að búið væri að ganga frá tryggingum fyrir þetta ár í gegnum Icelandair fyrir miklu minna gjald og væru því horfur betri fyrir komandi tímabil. Viðhaldsmálin eru líka ákveðið áhyggjuefni.

Hann þakkaði þeim félagsmönnum fyrir sem unnið hefðu í sjálfboðavinnu fyrir félagið m.a. vegna innheimtu félagsgjalda, gerð myndbands og fleira. Hann nefndi að Hallgrímur Jónsson væri að taka við sem yfirflugstjóri þristavinafélagsins og að undirbúningur væri í gangi að gerð fréttabréfs íslenska DC3 þristavinafélagsins.

Þá fór hann nokkrum orðum um fund norrænu þristavinafélaganna sem haldinn var fyrr á þessu ári. Þar sem rætt var meðal annars um sameiginlegan varahlutalager, þjálfunarmál og lágmarks lengd flugbrauta. Fram kom að íslenska félagið hefur flesta flugmenn með réttindi á DC3, samtals 16, á meðan hin norrænu félögin hafi 6 – 10 flugmenn. Einnig rætt um sameiginlegt átak til að lækka trygginga iðgjöld og um minjagripa heimasíðu. Tómas sagðist vænta mikils af  þessu samstarfi við norrænu félögin.

Þá nefndi hann að send hefðu verið út bréf til fyrirtækja þar sem óskað er eftir aðstoð eða samstarfi um uppgræðslu með Páli Sveinssyni í sumar, og ljóst að ef lítið yrði borið á í sumar þá þyrfti að skoða það að taka tankinn úr vélinni og setja farþegasæti í staðinn.
Að lokum sagði hann að ekki hefði enn fengist fé til að hefja endurbætur á TF-ISB og því myndi félagið einbeita sér að rekstri Páls Sveinssonar. Sagði mörg ærin verkefni framundan við að halda vélinni gangandi og efla félagið, hvatti því félagsmenn til að aðstoða eftir megni svo vélin gæti flogið um mörg ókomin ár.


Fundarstjóri bar upp skýrslu stjórnar til samþykkis sem var samþykkt einhljóða.

3) Reikningar lagðir fram til samþykktar


Þá skýrðu þeir Jón Kristinn og Tómas Dagur frá reikningum félagsins og sundurliðun á þeim styrkjum sem félagið fékk á árinu.

Gunnar Arthursson spyr um liðinn ferðakostnaður. Tómas Dagur svarar því til að það sé hótelkostnaður sem tengist ferð Páls Sveinssonar um Evrópu.

Reikningar samþykktir samhljóða

4) Flugið á árinu 2006


Tómas Dagur tekur til máls, sagði það óráðið hversu mikið flugið yrði en taldi ástæðu til bjartsýni. Aðallega verði borið á svæðið við Þorlákshöfn og að farið yrðu að lágmarki 30 ferðir frá Reykjavík. Dreyfingu verði lokið um mánaðarmót maí júní og þá yrði hugsanlega farið í hringflug um landið. Þjálfun flugmanna mun verða um miðjan maí.

5) Framtíð TF-ISB


Tómas Dagur nefndi að Gunnar Valgeirsson (Bói) hafi tekið saman kostnaðinn við að koma vélinni annarsvegar í flughæft ástand og hinsvegar í sýningarhæft ástand. Gerir áætlunin ráð fyrir því að það muni kosta um 64 milljónir og 14 milljónir. Stærsti kostnaðurinn í þessum tölum eru vinnulaun. Það er ennfremur reiknað með því að það muni kosta um 6-7 milljónir að taka tankinn úr Páli Sveinssyni og setja farþegasæti í staðinn. Tómas segir að þetta séu háar upphæðir og spyr fundarmenn um skoðanir. Þá nefndi hann að félaginu hafi áskotnaðst Ólafsvellir og að þar væri hægt að vinna í ISB.

Fundarstjóri þakkar Tómasi fyrir og opnar fyrir umræðu.

Snorri Snorrason telur farsælast að breyta Páli í farþegavél og það sé of mikið að vera með báðar vélarnar í gangi. Vill koma ISB í skýli hjá Icelandair í nokkur ár til að bjarga henni.
Gunnar Valgeirsson (Bói) tekur undir orð Snorra. Bjarga verði ISB frá frekari skemmdum. Nefnir að mat á kostnaði við endurbætur byggist á skoðun á vélinni sem hafi verið framkvæmd árið 1997. Hann varaði við því að keypt verði erlend vél sem er hugsanlega útjöskuð. Sagði ennfremur að þristavinafélagið væri fyrir áhugamenn um DC3 og ferðir í vélunum og vill þess vegna breyta Páli Sveinssyni í farþegavél.

Guðmundur Hagalín tekur undir orð Snorra og Gunnars. Vill henda dreyfibúnaðinum úr Páli og hefur trú á að fólk vilji kaupa ferðir í vélinni.

Snorri Snorrason undirstrikar mikilvægi þess að forða ISB frá frekari skemmdum sem fyrst og vill fá vélina inn í skýli Icelandair í Keflavík þar sem er rafmagn, hiti og þekking til staðar.
Tómas Dagur tók til máls og sagðist vera sammála orðum úr sal. Taldi að félagið þyrfti að geta flogið með alla sína 630 félagsmenn. Greindi frá því að það væri í gildi samningur við Landgræðsluna sem segir að ekki megi taka tankinn úr án þeirra samþykkis. Ljóst að framtíðin væri að vera með vél í farþegaútgáfu, annað hvort Pál eða ISB. Síðan benti hann á að það væri rétt að fylgjast með því hvað Arngrímur Jóhannsson mun gera við sína vél. Þá sagði hann frá því að það væri mikill áhugi erlendra ferðamanna á að ferðast með DC3 og það hefðu komið fyrirspurnir þess efnis. Hann greindi frá þeirri skoðun sinni að það ætti að forða ISB úr skýli 3 og inn í Ólafsvelli. Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair group, hefur tekið ágætlega í það að aðstoða við að breyta Páli í farþegavél eða þá koma ISB í sýningarhæft ástand. Notast megi hugsanlega við Icelandair skýli í Keflavík en erfitt væri fyrir félagsmenn að koma þangað inn og fylgjast með gangi mála.

Gunnar Valgeirsson nefnir að það sé mikill áhugi almennings á flugi í DC3 og spurning hvort ekki sé hægt að fá peningamenn til aðstoðar við rekstur.

Spurning kom úr sal. Hvernig er flug DC3 fjármagnað á norðurlöndunum? Tómas Dagur svarar því til að sænska félagið væri styrkt af SAS en annars væri flugið fjármagnað að mestu leiti með flugi með félagsmenn.

Fundarstjóri tekur til máls og spyr fundarmenn hvar væri hægt að geyma ISB að endurbótum loknum og segist sammála formanni um að koma ætti vélinni sem fyrst úr skýli 3 og inn í Ólafsvelli. Þá nefnir hann að brottflutningur hersins frá Keflavík gæti borið ný tækifæri.
Páll Stefánsson tekur til máls. Honum finnst fundarmenn vera að dreifa kröftum sínum og telur að dreyfingartíminn sé liðinn. Hann segir TF-ISH sem er Páll Sveinsson vera miklu merkilegri vél en TF-ISB þar sem hún er fyrsta vélin sem kom til Íslands og það ætti að koma henni í farþegahæft ástand. Þó rétt að sjá til með sumarið ef kraftaverk skyldi gerast og mikið vera borið á. Telur að hægt sé að bjóða upp á flug með farþega t.d. norður fyrir heimskautsbaug með flugfreyjum og kampavíni.

Ábending úr sal, mun félagsmönnum ekki fjölga við það að boðið er upp á vél sem er í farþegahæfu ástandi.

Björn Bjarnarson bendir á að skýli 3 er ekki bara slæmt fyrir ISB, heldur einnig fyrir Pál Sveinsson

6) Ákvörðun um árgjald


Fundarstjóri tekur upp 6. mál á dagskrá, ákvörðun um árgjald. Greinir frá því að stjórn leggi til að gjaldið verði óbreytt 2500 kr.Snorri Snorrason leggur fram formlega tillögu um að gjaldið verði hækkað í 3000 kr.Stefán Vilhelmsson mælir móti því og vill hafa gjaldið óbreytt 2500 kr.Tómas Dagur talaði einnig fyrir því að gjaldið yrði áfram 2500 kr. Þar sem fjárhagur félagsmanna væri misjafn. Snorri dró þá tillöguna til baka og var tillaga stjórnar samþykkt.

7) Önnur mál


Stefán Vilhelmsson sagði frá því að ekki hefði verið minnst á alla þá sem tóku þátt í fluginu til Skotlands fyrir 60 árum í greinum um flugið á síðasta ári, þar vantaði að nefna 1 eða 2 úr áhöfn vélarinnar.Tómas svarar því til að ef þetta hafi birst í DC NYT þá sé það alveg sjálfstætt blað með Nils ábyrgðarmann. Vissi ekki til þess að neinn hefði verið skilinn útundan í umfjöllun um flugið en að málið yrði skoðað.

Jane Petersen fráfarandi formaður Danska DC3 félagsins sendi fundinum yfirlýsingu sem Tómas Dagur las upp:

“Dear Icelandic DC-3 friends, yesterday was my last day as president in the Danish DC-3 friends, that is why I would like to thank you wonderful people for the way you have been treating me, on my visits to you. I hope you will have a good meeting. May happiness always follow you – many happy landings.”

Jane

Þá greindi Tómas frá því að það yrði mikil DC3 sýning í Hollandi 27. og 28. maí n.k. Segist ætla að fara þangað og býður fundarmönnum að koma með. Þá sagði hann frá því að haldið yrði upprifjunarnámskeið fyrir flugmenn 3. maí og bauð alla velkomna meðan húsrúm leyfir.
Fundarstjóri hvetur menn til að mæta á námskeiðið. Hann vill að fundurinn sendi kveðju til fráfarandi formans danska DC3 félagsins. Þá greindi hann frá því að verið væri að stofna nefnd á vegum menntamálaráðuneytis um flugminjasafn sem mun taka formlega til starfa í vor. Segist vænta mikils af því starfi. Að lokum býður hann Tómasi Degi að slíta fundinum formlega. Þakkar fundarmönnum fyrir gagnlegan fund.

Tómas Dagur tekur til máls. Hann segist hafa sett markið hátt við stofnun félagsins og ætlað að gera mikið. Telur margt hafa gengið vel þó verið með plön um að vera kominn lengra. Sagði félagið hafa farið vel af stað fyrsta árið. Hann þakkaði fundarmönnum fyrir komuna og gagnlegar umræður.

Þá sleit Tómas fundinum kl 18:27 með orðunum GRÆÐUM LANDIÐ!!
Síðan voru sýndar myndir og upptökur af Páli Sveinssyni.

Nýjustu fréttirnar

Saga Gunnarsholts

Sveinn Runólfsson, fyrverandi Landgræðslustjóri og varaformaður Þristavinafélagsins, hefur skrifað bók um sögu Gunnarsholts....

Lesa frétt

SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA ÞRISTAVINA

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.