FERÐASAGA PÁLS SVEINSSONAR

6. júní 2005

Í tilefni af 60 ára afmæli millilandaflugs Íslendinga Reykjavík – Duxford 06.07.2005.

Flug Páls Sveinssonar á vegum Þristavinafélagsins fyrir Icelandair til Duxford, Glasgow, Kaupmannahafnar og Torp í Noregi lagði upp þann 6. júlí 2005. Allar tímasetningar sem talað er um í frásögn þessari eru miðaðar við íslenskan tíma.

Flugtak frá Reykjavíkurflugvelli var kl 08:47 á braut 01, flogið var síðan lágt yfirflug yfir braut 19 áður en klifrað var í hægri hring í skýjum til að komast yfir hindranir í austri.


Við komum upp úr skýjum í ca 4000 fetum. Flugleiðin var um Vestmannaeyjar, og 61°N og 10°W þaðan á Stornaway á Suðureyjum, Glasgow í Skotlandi, yfir Manchester og stefnan þaðan tekin á Duxford.

Við flugum í 7000 feta hæð yfir Atlantshafið, hækkuðum svo flugið í 9000 fet suður af Glasgow. Við flugum fyrir ofan ský þar til við fórum að nálgast Manchester þar fórum við inn í ský með tilheyrandi ókyrrð og ísingu.

Þegar hún fór að hlaðast á vélina áttum við engan kost annan en að lækka flugið í heitara loft til að bræða ísinn af vélini, þar sem enginn afísingarbúnaður er á vængjum vélarinnar. Þegar við vorum í u.þ.b. 7500 fetum fór ísinn að byrja að bráðna af vélinni og héldum við því 7000 fetum eftir það.

Meðan á þessu stóð var mikil umræða um borð í vélinni hvernig þetta var þegar flogið var í þessum hæðum hér áður fyrr. Flestir um borð upplifðu gamla tíma á þessu augnabliki og höfðu gaman af.

Við byrjuðum síðan lækkun flugs snemma til þess að freista þess að vera í sjónflugi og geta gert sjónaðflug að Duxford, að öðrum kosti þurftum við að gera blindaðflug að Cambridge og fljúga sjónflug til Duxford. Við náðum sjónflugi í 5000 fetum og gátum gert sjónaðflug að Duxford og lentum kl 15:48. Flugtíminn var því sjö klukkustundir og ein mínúta. Við eyddum u.þ.b. 650 gallonum af eldsneyti. Vinstri (nýji mótorinn) brenndi 3 gallonum af olíu og sá hægri 5 gallonum. Það þótti lítil eyðsla á olíu.

Áhöfn: Flugmenn: Tómas Dagur Helgason, Hallgrímur Jónsson og Gunnar Arthursson. Flugvirki: Hannes Thorarensen Aðstoðamaður flugvirkja: Björn Bjarnarson

Flugsýning í Duxford 9. og 10. júlí

Flugsýningin á Duxford gekk mjög vel. Við flugum báða dagana og vorum einir á lofti á meðan á því stóð, þannig að vélin fékk óskipta athygli. Við vorum á lofti í 6 mínútur hvorn dag fyrir sig og flugum við þrisvar sinnum yfir völlinn á þeim tíma. Þegar ekið var inn að stæði eftir flugið þá keyrðum við framhjá áhorfendum sem klöppuðu mikið fyrir vélinni og hún lofuð fyrir hversu falleg hún er. Vélin vakti mikla athygli á sýningunni og lof hjá þeim sem tóku þátt í henni, sem og hjá áhorfendum.

Met þátttaka var að flugsýninguni í Duxford. talið er að u.þ.b. 40.000 manns hafi sótt sýninguna um þessa helgi. Þar sem enginn okkar hafði tilskylda þjálfun til að fljúga á flugsýningu sem þessari þá fengum við norskan flugstjóra til að vera flugstjóri á flugsýningunni. Hann hefur flogið noska þristinum oft á flugsýningum og einnig Harvard flugvél.

Áhöfn: Flugmenn: Thore Virik flugstjóri hjá Dakota Norge, flugmenn með honum Tómas Dagur Helgason og Hallgrímur Jónsson.

Duxford – Glasgow 11.07.2005

Flogið var til Glasgow frá Duxford í blíðskapar veðri, léttskýjað alla leið og lítill vindur.

Flugtak frá Duxford var kl 10:20. Það var notaleg tilfinning þegar við vorum að aka að braut til flugtaks í Duxford að aka á eftir B-17 í flugtaksstöðu, þessi B-17 flugvél hefur fengið nafnið “Sally B”. Ferðin þangað gekk í alla staði vel og lent í Glasgow

kl 12:47, flugtíminn var því 2 klst og 27 mín. Við nutum útsýnisins á leiðinni, sem var mjög gott í þeirri hæð sem við flugum í, byrjuðum í 4500 fetum hækkuðum síðan flugið í 6000 fet og síðar í 8000 fet. Í Glasgow var léttskýjað og hægviðri, ekki oft sem maður hefur komið þangað í þannig veðri.

Áhöfn: Flugmenn: Hallgrímur Jónsson, Hilmar Baldursson, Tómas Dagur Helgason Flugvirki: Hannes Thorarensen Aðstoðarmaður flugvirkja: Björn Bjarnarson. Hallgrímur Jónsson flaug síðast á DC-3 til Glasgow fyrir réttum 40 árum síðan, þann 23. júlí 1965.

Glasgow – Roskilde 12.07.2005

Dagurinn byrjaði með hátíðahöldum á vegum Icelandair.

Þar voru mættir til Glasgow forráðamenn samgöngumála Íslands og Skotlands, þar á meðal samgönguráðherra Sturla Böðvarsson, flugmálastjóri Þorgeir Pálsson og sendiherra Íslands í Bretlandi Sverrir Haukur Gunnlauksson. Magnús Magnússon sjónvarpsmaður ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Fjármálaráðherra Skotlands og framkvæmdastjóri Glasgow flugvallar ásamt mörgum fleirum.

Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair tók á móti farþegum og áhöfn á flugi Icelandair frá Keflavík sem lenti klukkan 10:20 að staðartíma. Hátíðahöldin voru síðan haldin í VIP sal á vellinum þar sem Þristurinn var fyrir utan.

Jón Karl Ólafsson fagnaði því, í ræðu sinni, að geta minnst þessara tímamóta með því að hafa Þristinn þarna með í Glasgow. Það var ekki laust við að maður fylltist stolti þegar B757 var ekið fram hjá Þristinum eftir ræðuhöldin. Páll Stefánsson, sem var flugstjóri á B757 vélinni, stöðvaði vélina við hliðina á Þristinum í smá stund. Á meðan voru teknar myndir af þeim saman og horfðum við síðan á þegar B757 vélin hóf sig til flugs. Að því loknu var viðstöddum gefinn kostur á að skoða Þristinn, og nýttu sér það margir.

Lagt var af stað frá Glasgow eftir vel heppnuð hátíðahöld Icelandair.

Flugtak frá Glasgow til Roskilde var kl 14:45, lending í Roskilde var kl 18:40. Flugtími því 3:55 mín.

Flugtak var til vesturs og beygt til austurs fljótlega eftir flugtak, við vorum nokkrum sinnum spurðir að því í brottfluginu hvað við værum að klifra mikið (fet á mínútu) þeir eru greinilega ekki vanir að hafa DC-3 fljúgandi á þessum slóðum. Þeim fannst hún greinilega ekki vera dugleg að klifra. Léttskýjað var í fyrstu, en þegar við komum út yfir Norðursjóinn þá var þar skýjabreiða sem við flugum yfir. Þegar við komum inn yfir strönd Danmerkur þá fór að létta til og varð heiðskýrt. Við flugum yfir Billund og þaðan beint á Roskilde.

Flogið var í 7000 feta hæð.

Hér eins og yfir Englandi var stórkostlegt að fljúga yfir í þessari hæð og njóta útsýnisins, við lækkuðum flugið fljótlega eftir að við komum yfir strönd Danmerkur og vorum að mestu í 4000 fetum.

Í Roskilde var meiningin að geyma flugvélina þar til að henni yrði flogið til hátíðahalda Icelandair á Kastrup flugvelli þanni 14. júlí.

Flugmenn í ferðinni: Tómas Dagur Helgason, Pétur Arnarson, Jón Karl Snorrason og Hallgrímur Jónsson. Flugvirki: Hannes Thorarensen.

Roskilde – Kaupmannahöfn 14.07.2005

Flugtak frá Roskilde var kl 05:54 og flogið var í átt til Vaerlöse, sem er hervöllur rétt fyrir norðan Kastrup, þar sem DC-3 Vennerne hafa Þristinn sinn. Við hringdum okkur saman áður en við fórum í loftið flugstjórarnir á Páli og danska þristinum.Þegar við nálguðumst Vaerlöse, eftir u.þ.b. 15 minútna flug, þá fór danski þristurinn í loftið, við biðum yfir vellinum á meðan svo eltu þeir okkur að ströndinni rétt fyrir norðaustan Kastrup.

Við flugum svo yfir Nýhöfn, miðborg Kaupmannahafnar og Kastrup flugvöll, braut 12, í 1000 fetum, Páll á undan og danski þristurinn rétt á eftir okkur. Við lentum síðan á Kastrup flugvelli kl 06:19 eftir 25 mín. flug.

Við lögðum vélunum fyrir utan gömlu flugstöðvarbygginguna þar sem hátíðahöldin áttu að fara fram.

Það var mjög tignarlegt að sjá vélarnar standa þarna saman, þetta var einnig mjög ánægjuleg stund þar sem við vorum búinn að tala um það í 5 ár að hittast með vélarnar í Danmörku.

Hátíðahöldin tókust vel og vélin vakti mikla athygli eins og á hinum stöðunum. B757 sem kom frá Keflavík kl 10:45 var ekið smá aukahring á vellinum til að gestir gætu séð hana aka framhjá þristunum.

Flugmenn: Tómas Dagur Helgason, Pétur Arnarson, Hallgrímur Jónsson Flugvirki: Hannes Thorarensen.

Kaupmannahöfn – Torp, Sandefjörd 14.07.2005.

Flugtak frá Kaupmannahöfn var kl 14:57. Strax eftir flugtak fengum við heimild til að beygja til hægri og fljúga beint á Álaborg, skömmu síðar fengum við heimild til að fljúga beint á Torp. Við klifruðum í 4000 fet, það var léttskýjað alla leið og við vorum að mestu yfir sjó á leiðinni, en fórum þó yfir Skagen í Svíþjóð. Þegar við nálguðumst Torp, sem er í Sandefjörd, þá fór Norski þristurinn á loft ásamt Harvard flugvél sem þeir eiga.

Þeir mættu okkur svo í minni Sandefjörd og flugu samflug með okkur yfir brautina til norðurs.

Við tókum síðan vinstri beygju yfir bæinn, komum svo undan vindi og lentum til suðurs. Norska Þristinum var flogið við hliðina á okkur, en Harvardinn flaug lengra í burtu til að ná góðum myndum af þessum viðburði. Thore Virik var flugstjóri á norska þristinum, en hann flaug okkar vél á Duxford, það var stórkostleg sjón að sjá vélina fljúga við hliðina á okkur þetta nálægt. Tveir af okkar félögum þeir Páll Stefánsson og Sverrir Þórólfsson voru um borð í norska þristinum. Miklir fagnaðarfundir voru síðan á jörðu niðri eftir lendingu sem var kl 17:13. Flugtíminn því 2 klukkustundir og 16 mín.

Flugmenn: Harald Snæhólm, Björn Thoroddsen, Tómas Dagur Helgason og Hallgrímur Jónsson. Flugvirki: Hannes Thorarensen.

Torp – Bergen 15.07.2005.

Ákveðið var að taka daginn snemma til að vera komnir heim tímanlega fyrir þá móttökuathöfn sem búið var að ráðgera. Flugtak var áætlað kl 06:00. Það kom þó fljótlega í ljós þegar við fórum að spjalla við veðurfræðing að veðrið myndi raska þessari áætlun. Vestur strönd Noregs var lokuð fyrir okkur, bæði í Stavanger og Bergen var mikil rigning og þrumuveður sem átti síðan að ganga til austurs og koma yfir Sandefjörd. Þar sem við höfum ekki radar í þristinum og komumst ekki upp fyrir 10.000 fet þá var strax ljóst að við yrðum að bíða þetta veður af okkur.

Meðan beðið var og á milli þess sem veðrið var athugað voru rifjaðar upp sögur frá gamalli tíð, þar sem setið var í Bergen, Færeyjum og víðar við sömu aðstæður og við vorum í núna og þess beðið að veðrinu slotaði og hægt væri að leggja af stað.

Flugtak var síðan frá Torp kl 14:33 við vorum búnir að sjá það á radarmynd sem við fengum á internetinu að það myndi taka okkur u.þ.b. 30 mín að fljúga í gegnum veðrið þar sem það var þegar við ákváðum að leggja í hann. Það gekk eftir, fyrstu 30 mín. voru flognar í miklum skúrum og að mestu í skýjum, með tilheyrandi ókyrrð. En um borð brostu menn í kampinn og fengu mismunandi mikið “flash back”. Við höfðum ákveðið að fljúga með ströndinni til þess að geta flogið fyrir neðan frost línu til þess að forðast ísingu. Eftir u.þ.b. 30 min fórum við að geta beygt til norðurs í átt að Stavanger og þaðan beint á Bergen til að taka eldsneyti til heimferðarinnar. Það stytti flugleiðina töluvert að þurfa ekki að fylgja ströndinni alla leið. Við flugum inn og út úr skýjum, það var að mestu kyrrt í lofti eftir fyrstu 30 min. en fengum þó aðeins að finna fyrir því að við vorum á flugi í veðri með ókyrrð.

Flogið var í 5000 feta hæð til að byrja með og síðan klifrað í 8000 fet. Flugum við seinnihluta leiðarinnar að mestu fyrir ofan ský, þar til að við fórum að lækka flugið. Gert var aðflug á braut 35 í Bergen og við vorum í sjónflugi í 3000 fetum.

Lending í Bergen kl 16:36 flugtíminn því 2:03.

Flugmenn: Hallgrímur Jónsson, Sverrir Þórólfsson, Páll Stefánsson og Tómas Dagur Helgason. Flugvirki: Hannes Thorarensen.

Bergen – Reykjavík 15.07. 2005.

Til að gera stoppið eins stutt og hægt var í Bergen var skipt með sér verkum. Hannes fyllti tankana af bensíni og athugaði olíuna á mótorunum. Hallgrímur, Sverrir og Páll fóru til að tala við veðurfræðing. Tómas fór að greiða lendingargjöldin og annað sem þurfti til að fá að fara í loftið aftur.

Stoppið var rúmur klukkutími, flugtak var kl 17:50 og áætlaður flugtími heim var 6 klst og 29 mín. Við komum upp fyrir skýin í 4000 fetum og klifrað var í 6000 fet sem var flugshæðin okkar yfir Atlantshafið. Við flugum ofar skýjum allan tíman.

Færæjar risu tignarlega úr sæ þegar við fórum að nálgast þær, samspil skýja og sólar gerði þessa sjón ennþá tilkomumeiri.

Þegar flogið er svona lengi á Páli Sveinssyni þá kólnar fljótt í vélinni, þar sem búið er að rífa einangrunina úr henni til að létta hana eins og kostur er. Það er því gott að hafa nóg af peysum og úlpum til að fara í á löngum leiðum.

Við flugum inn í ský þegar við fórum að nálgast Reykjavík og gerðum aðflug inn á braut 13, komum niður úr skýjum í u.þ.b. 900 fetum. Lent var kl 00:41 og flugtíminn því 6 klst og 40 mín.

Á leiðinni heim barst talið að þrumuskýjunum sem við þurftum að krækja framhjá. Við vorum sammála um það að þau væru orðin stærri heldur en við ættum að venjast, aðallega vegna þess að við erum orðnir vanir að horfa á þau úr 30.000 fetum og yfir, en ekki úr 6.000 til 8.000 fetum eins og við gerðum þarna. Það sama gildi um Færeyjar, fjöllin þar voru há miðað það sem við eigum að venjast þegar við horfum yfir eyjarnar.

Við flugum yfir Færeyjar og síðan Ingólfshöfða og þaðan inn til Reykjavíkur. Margir hafa sett sig í samband við okkur eftir að víð komum heim og sagt okkur að þeir hafi heyrt í vélini fljúga yfir, þó þeir hafi ekki séð hana. Fólk heyrði í okkur frá Ingólfshöfða og allt til Reykjavíkur, það var skýjað þannig að við sáumst ekki frá jörðu niðri. Þær tímasetningar sem fólkið gaf okkur standast svo þau hafa því heyrt þegar við flugum yfir.

Við keyptum samlokur, kex, vatn og kaffi á hverjum stað fyrir sig til að hafa eitthvað til að borða og drekka á leiðunum.

Áhöfn: Flugmenn: Páll Stefánsson, Hallgrímur Jónsson, Sverrir Þórólfsson og Tómas Dagur Helgason. Flugvirki: Hannes Thorarensen.

Ferðin gekk í alla staði vel, og fór alveg eins og áætlað var. Samanlagður flugtími í ferðinni var 25 tímar. Við öðluðumst mikilvæga reynslu í þessari ferð fyrir framhaldið hjá okkur í Þristavinafélaginu, þarna vorum við að fljúga vélinni við aðstæður sem við erum ekki vanir. Löng flug eldsneytis og olíu eyðsla önnur en við þekkjum úr dreifingarfluginu. Þátttaka okkar í flugsýninguni skilaði okkur líka dýrmætri reynslu og samböndum.

Það er þó ekki sjálfgefið að ferð sem þessi gangi svona vel eins og hún gerði, það liggur mikil vinna í undirbúningi fyrir ferðina. Margir komu þar að og ætla ég að nefna nokkra aðila sem hjálpuðu okkur við undirbúninginn og veittu okkkur margháttaða aðstoð.

Flugvirkjarnir okkar Benedikt Sigurðsson, Sigurður Sigurjónsson og Hannes Thoraresen ásamt Birni Bjarnarsyni undirbjuggu vélina fyrir ferðina þannig að hún gekk eins og best varð á kosið. Hannesi og Birni þakka ég fyrir samfylgdina í ferðinni.

Úlfar Henningsson flugstjóri lánaði okkur talstöðvar og GPS staðsetningartæki sem voru sett í vélina fyrir ferðina. Við hefðum ekki komist í þessa ferð án slíkra talstöðva, og sparaði það því okkur töluverðan pening að fá þær lánaðar í stað þess að þurfa að kaupa þær. R. Sigmundsson ehf. gaf Þristavinafélaginu GPS staðsetningartæki í vélina, tæki þetta heitir Garmin 296 sem er með litaskjá og gefur aðvaranir um hindranir framundan. Þetta tæki reyndist okkur frábærlega í alla staði, og mikill fengur fyrir félagið að eignast svona tæki.

Sveinn Björnsson og starfsfólk hans í Flugþjónustuni útbjuggu öll flugplön fyrir okkur og sendu þau til okkar og Flugstjórnar. Einnig útveguðu þau okkur allar þær veðurupplýsingar sem við þurftum á leiðinni.

Við nutum dyggrar aðstoðar starfsfólks flugöryggissviðs Loftferðaeftirlitsins við undirbúning ferðarinnar. Ágúst Sigurjónsson , Vilborg Gunnlaugsdóttir og Svanhildur Sigurðardóttir sem eru starfsfólk Icelandair, og félagar í Þristavinafélaginu, hjálpuðu okkur með ýmislegt sem við þurftum að fá t.d. handbækur, tryggja besta eldsneytisverð, bóka hótel, flug o.fl.

Fyrirtækið Fasa föt saumuðu á okkur einkennisföt, samskonar og notuð voru fyrir 60 árum, það gerði stemminguna ennþá betri á viðkomustöðum okkar og vakti mikla athygli.

Ólafur Ólafsson málarameistari og hans menn gerðu vélina svona fallega eins og hún er í dag.

Öllum þeim flugmönnum sem tóku þátt í ferðini með okkur færi ég sérstakar þakkir, nöfn þeirra hafa verið talin upp í ferðasöguni hér á undan.

Icelandair Cargo aðstoðaði okkur við að fá þá varahluti til landsins sem okkur vantaði, okkur að kostnaðalausu.

Til að minnast 60 ára afmælis síns tók Flugmálastjórn þátt í þessu afmælisflugi millilandaflugs, með því að greiða hluta af yfirflugsgjöldunum í ferðinni.

Öllu þessu fólki og fyrirtækjum vil ég þakka sérstaklega fyrir þeirra vinnu og framlag til Þristavinafélagsins til að gera þessa ferð mögulega og svona vel heppnaða eins og raun varð á.

Fjölmargir félagar í Þristavinafélaginu sýndu ferðinni mikinn áhuga og færi ég þeim og stjórn félagsins bestu þakkir, en nokkrir þeirra lögðu fram mikla vinnu við ferðina.

Landgræðslan og Landbúnaðarráðherra skiluðu vélini til okkar með nýjum mótor. Landbúnaðarráðherra hefur sýnt þessu máli mikin velvilja og stuðning. Færi ég honum og Landgræðsluni mínar bestu þakkir fyrir.

Að lokum vil ég þakka Guðjóni Arngrímssyni Fl Group og Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair fyrir frábært samstarf og þann áhuga sem þeir hafa sýnt á vélini og þessari ferð. Icelandair á mestan heiðurinn fyrir að gera þessa ferð að veruleika. Ég er viss um að þetta er frábær byrjun á farsælu samstarfi þeirra og Þristavinafélagsins um varðsveislu Þristsins okkar, kjörgrip íslensku þjóðarinnar.

Tómas Dagur Helgason.

Nýjustu fréttirnar

SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA ÞRISTAVINA

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.