23. september 2010
Sælir félagar.
Laugardaginn 18. sept. sl. fór nokkuð stór hópur með morgunflugi Flugfélags Íslands til Akureyrar til að framkvæma athöfn til heiðurs þeirra sem fóru inn á Bárðarbungu til að sækja áhöfnina á flugvélinni Geysi sem hafði fundist þar. Erling Andreassen flugvirki og ég gerðum vélina flugklára og eftir hádegið var farið í loftið með vélina opna að aftan. Þar voru sjö fallhlífarstökkvarar úr Flugbjörgunarsveitinni, ég og Jónas Margeir blaðamaður á Morgunblaðinu. Flugmenn voru Björn Thor (Benni) og Hallgrímur Jónsson (Moni). Athöfnin fór fram yfir flugvellinum og flugsafninu. Fyrst var yfirflogið, síðan gert aðflug í 400 fetum og cargo hent úr vélinni.
Síðan var klifrað í 4000 fet og þá stukku flugbjörgunarsveitarmennirnir úr vélinni. Magnús Guðmundsson fyrrum flugstjóri og Dagfinnur Stefánsson fyrrum flugstjóri fylgdust með á jörðu niðri. Allt tókst þetta mjög vel og vakti mikla athygli. Jónas Margeir skrifaði grein um þetta og Geysisslysið sem var birt í Morgunblaðinu sl. mánudag.
Næst á dagskránni er síðan að fara norður aftur og koma vélinni inn á safnið til vetrardvalar og verður það gert einhverja næstu daga. Ég setti nokkrar myndir inn á myndavefinn hér sem ég tók í ferðinni.
Kveðja, Karl Hjartarson