9. apríl 2009
Sælir félagar. Hér er enn og aftur dagskrá aðalfundar DC3 Þristavinafélagsins og fréttir frá formanni félagsins.
Hvet sem flesta að mæta í Nauthólsvíkina. Kveðja, Karl Hjartarson
Ágæti félagi,
Aðalfundur DC3 Þristavinafélagsins verður haldinn í Flugröst í Nauthólsvík 16. apríl kl 17:00.
Dagskrá fundarins:
- Kosning fundarstjóra
- Skýrsla formanns
- Endurskoðaðir reikningar lagðir fram
- Afgreiðsla framkominna tillagna
- Ákvörðun árgjalds
- Kjör formanns, stjórnar og varamanna
- Kjör endurskoðenda og skoðunarmanna reikninga
- Önnur mál.
___________________ ___________________ ________________
Nú erum við að huga að vorverkum við Þristinn okkar, Pál Sveinsson. Unnið er að því að koma talstöðinni, sem okkur var gefin, í vélina. Það er gert undir stjórn Sigurðar P. Sigurjónssonar rafeindavirkja, en hann hefur séð um viðhald á tækjakosti í stjórnklefanum hjá okkur mörg undanfarin ár. Við reiknum með því að sú vinna klárist um miðjan apríl. Honum til trausts og halds er sem oftar Karl Hjartarson.
Nýja talstöðin ásamt nýju intercom (tæki sem gerir flugmönnum kleift að tala sín á milli á flugi) verður mikil bylting fyrir okkur sem erum að fljúga vélinni og fyrir flugumferðastjórn.
Ein loftskrúfa hefur verið send til USA til yfirferðar, hún ætti að verða tilbúin í lok apríl. En við þurfum að setja hana á eigi síðar en í lok maí. Icelandair Cargo flytur skrúfuna fyrir okkur til og frá USA án endurgjalds. Við erum þeim afar þakklátir fyrir það.
Nokkrir flugvirkjar munu fara norður til Akureyrar fyrstu helgina í maí og gera ársskoðunina á vélinni þar, að eins miklu leiti og hægt er. Við munum síðan leita til Icelandair til að aðstoða okkur með það sem við getum ekki gert fyrir norðan. Þeir Kristján Tryggvason og Birkir Halldórsson halda utan um viðhaldsmálin fyrir okkur og stýra þessari vinnu. Öll þessi viðhaldsverkefni eru unnin í sjálfboðavinnu. Bestu þakkir fyrir það.
Við reiknum með að flug í sumar verði með sama hætti og undanfarin sumur, þ.e. að við munum fljúga vélinni við mismunandi tækifæri, en við þurfum að fá styrki fyrir þau flug sem við förum.
Við þurfum allavega að stefna að því að það heyrist í vorboðanum sem víðast og eigi síðar en í lok maí.
Ég vonast til að sjá sem flest ykkar á fundinum.
Kveðja,
Tómas Dagur Helgason,
formaður.