11. febrúar 2007
Jæja félagar.
Nú er svo komið að í alvöru er komin á skrið sú hugmynd að breyta Páli Sveinssyni aftur í farþegavél. Það er reyndar ekki hrist fram úr erminni á einum degi. Byrjað er að vinna að áætlun að þessu í stjórn félagsins. Það þarf að taka áburðartankinn úr vélinni og um leið allan þann búnað sem fylgdi áburðardreifingunni, hanna innréttingu, finna sæti og ekki síst finna einhvern sem vill styðja og styrkja félagið til þessara breytinga.
Því er hér með auglýst eftir viðskiptafræðingi eða einhverjum kunnugum áætlunargerð sem væri fáanlegur til að aðstoða. Þeir sem áhuga hafa geta sett sig í samband við [email protected] Það yrði mikil breyting fyrir félagið ef af þessu yrði því mikill áhugi er að komast í flug með þristi allsstaðar í heiminum og ekki síst hér heima.
Félagskveðja, Karl Hjartarson