BRÉF TIL FÉLAGSMANNA

16. september 2010

Ágæti félagi

Nokkuð langt er síðan að við sendum ykkur upplýsingabréf og biðjumst við velvirðingar á því.

Í byrjun árs veiktist Niels Helmö Larsen, ritstjóri DC3 NYT, og varð að hætta að gefa út blaðið. Það blað sem nú er gefið út af danska klúbbnum, heitir það sama en í síðasta blaði var nánast engöngu fjallað um þau flug sem þeir áforma í sumar. Við munum fylgjast með þróun mála hjá Dönunum og fá blaðið hjá þeim aftur og senda ykkur, ef við teljum ástæðu til þess.

Þristurinn okkar var tilbúinn til flugs óvenju seint núna í sumar. Þetta stafaði af því að við þurftum að láta gera pressu próf á slökkviflöskunum sem eru fyrir mótorana. Þær voru sendar til Bretlands til yfirferðar fyrir síðustu áramót. Þrjár af fjórum flöskunum stóðust ekki það próf. Við áttum þrjár til viðbótar á lager hér heima sem við sendum út og tvær af þeim stóðust prófið. Okkur vantaði þá eina flösku en þessar flöskur eru ekki framleiddar lengur. Nokkrir aðilar leituðu að flösku fyrir okkur og loks fannst ein í Bandaríkjunum í byrjun júní.

Eins og undanfarin ár þá fóru flugvirkjarnir okkar norður til Akureyrar og framkvæmdu þá árskoðun sem þeir gátu gert þar. Vélinni var síðan flogið til Keflavíkur þar sem lokið var við skoðunina. Það var Icelandair Technical Service (ITS)sem kláraði hana fyrir okkur. Þeir gerðu þetta fyrir okkur án endurgjalds eins og áður. Þetta er frábært fyir okkur og á ITS bestu þakkir skildar fyrir þeirra innlegg til að halda vélini fljúgandi. Magnús Hjörleifsson, eigandi Aero Part Service í New York, hefur hjálpað okkur mikið í leit að varahlutum. Þegar aðrir höfðu gefist upp á að leita að slökkviflösku fyrir okkur, hélt hann áfram og fann hana fyrir rest. Magnús hefur styrkt okkur mikið undanfarin ár, með því að gefa okkur varahluti sem okkur hefur vantað. Skeljungur gaf nýlega eina tunnu af smurolíu.

Þrátt fyrir að vélin væri ekki tilbúinn fyrr en í júní þá höfum við nú þegar flogið meira en undanfarin ár. Þetta stafar af því að True North óskaði eftir því að við myndum fljúga fyrir þá, gegn styrk frá þeim. Flugið var 10 tímar, en flogið var með plast gítara og þeim kastað út úr vélini í auglýsingaskyni. Icelandair óskaði síðan eftir því að við myndum fljúga fyrir þá um Verslunarmannahelgina, í auglýsingaskyni með Bylgjunni. Icelandair styrkti okkur fyrir það flug, samtals 10 tímar. Venjubundin þjálfunarflug hafa svo verið farin. Vélin hefur síðan staðið við Flugsafn Íslands á Akureyri og á Reykjavíkurflugvelli. Það kom upp olíuleki á hægri mótor eftir Verslunarmannahelgina, sem var nokkuð erfitt að finna, en fljótlegt að gera við þegar búið var að finna hann. Vélin er núna á Akureyri og stendur við Flugsafn Íslands. Þar verður hún í vetur, en á vonandi eftir að fljúga eitthvað í haust.

Okkur hefur tekist að fá hluta af þeim teikningum sem okkur hefur vantað til að og breyta henni í farþegavél. Við vonum að þessar teikningar dugi til að klára málið, en aðilar hjá ITS munu skoða teikningarnar og ákvörðun tekin í framhaldi af því hvað gera skuli. Ef niðurstaðan verður að breyta vélinni í farþegavél, þá munum við taka við henni frá Landgræðslunni, samanber heimild í fjárlögum.

Þristakveðja,

Tómas D. Helgason, formaður.

Nýjustu fréttirnar

Saga Gunnarsholts

Sveinn Runólfsson, fyrverandi Landgræðslustjóri og varaformaður Þristavinafélagsins, hefur skrifað bók um sögu Gunnarsholts....

Lesa frétt

SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA ÞRISTAVINA

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.