16. janúar 2010
Ágæti félagi,
Garðabæ 3. jan 2010.
Ég vil byrja á því að óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegs nýs árs.
Vinnan við að fá Þristinn afhentan heldur áfram, ákveðinn áfangasigur vannst nú fyrir áramótinn. Þá var sett inn í fjárlög ársins 2010 heimild um að Þristurinn yrði afhentur til sjálfseignarstofnunar sem verður stofnað eingöngu fyrir eignarhald um þristinn. Þar með verður hann ekki lengur í ríkiseigu. Þristavinafélagið mun síðan áfram sjá um rekstur vélarinnar. Þetta eru góðar fréttir fyrir okkur og getum við því haldið áfram undirbúningi við að breyta vélinni aftur í farþegavél.
Eins og ég sagði ykkur í síðasta bréfi þá þurftum við að færa ISB á milli skýla í Keflavík þar sem hún var fyrir í því skýli sem hún var geymd í. Flutningur þessi tókst vel. Björn Bjarnarson sá um þetta fyrir okkur en starfsmenn Flugstoða ohf. aðstoðuðu við flutninginn. Við kunnum honum sem og Flugstoðum ohf okkar bestu þakkir fyrir. Ég vona því að ISB sé núna kominn á þann stað sem hún getur fengið að vera á þar til við getum farið að snúa okkur að uppbyggingu hennar.
Að þessu sinni þá fylgir DC3 NYT eingöngu til þeirra sem óskuðu sérstaklega eftir því að fá það sent. Ef einhverjir hafa ætlað sér að fá blaðið sent en gleymt því eða hafa skipt um skoðun og vilja fá blaðið sent þá endilega sendið tölvupóst til dc3@dc3.is og við senum ykkur blaðið.
Í apríl næst komandi verður 5. samnorræni Þristavinafundurinn haldinn í Stokkhólmi. Við munum sækja þá ráðstefnu eins og alla hina fundina. Hversu margir fara frá okkur liggur ekki ljóst fyrir núna. Í tengslum við þennan fund verður haldinn fyrsti stjórnarfundurinn í samnorrænum Þristavinaklúbbi sem búið er að stofna. Í stjórn þess kúbbs situr einn aðili frá hverju landi. Þessi klúbbur er hugsaður til að taka á og vinna að sameiginlegum málum sem geta nýst öllum klúbbunum. En það hefur tekið nokkurn tíma að stofna hann, fyrstu drög að þessari stofnun voru gerð á fundinum sem haldinn var hér á landi í febrúar 2007.
Þristakveðja
Tómas D. Helgason
formaður.
Láttu okkur vita ef þú vilt fá DC3 NYT sent til þín.
Kæru félagar, ég hef engu við þetta að bæta hjá Tómasi. Það er fagnaðarefni að við skulum nú eygja það að eignast vélina. Heyr!! Heyr!!!
Félagskveðja, Karl Hjartarson