AFMÆLISHÁTÍÐIN Á AKUREYRI

8. október 2013

Vel heppnuð afmælishátíð Þristsins í Flugsafni Íslands

 

Efnt var til afmælishátíðar í tilefni af 70 ára afmæli Þristsins TF-NPK 1. október síðastliðinn en þá voru liðin 70 ár frá því vélinni var rennt út úr verksmiðju Douglas í Bandaríkjunum. Saga Þristsins var rifjuð upp, sagt frá þætti hans í íslenskri flugsögu og sýndar myndir. Alls sóttu nærri 70 manns hátíðina sem haldin var í aðsetri vélarinnar hjá Flugsafni Íslands á Akureyri.

 

Formaður félagsins DC-3 Þristavinir, Tómas Dagur Helgason, setti hátíðina og bauð gesti velkomna. Síðan flutti Pétur  P. Johnson tölu um Þristinn og greindi meðal annars frá því hversu stóran þátt þessi stærsta farþegavél á sínum tíma átti í því að byggja upp flugstarfsemi svo víða um heim. Tómas Dagur Helgason ræddi almennt um hlutverk Þristsins í samgöngusögu Íslendinga og sérstaklega sögu TF-NPK sem fyrst bar einkennisstafina TF-ISH. Áður en hún var skráð hjá Flugfélagi Íslands notaði bandaríski herinn vélina hér á landi. Flugfélagið notaði Þristinn í innanlandsflugi, dálítið í millilandaflugi og til verkefna á Grænlandi og átti hún farsæla sögu í farþega- og flutningafluginu. Árið 1972 ákvað Flugfélagið að gefa Landgræðslunni vélina til áburðarflugs og var hún notuð sem slík allt til ársins 2006 þegar hún fór síðustu ferðina. Félagsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna önnuðust flugið í sjálfboðavinnu og með þeim hefur góður hópur tæknimanna séð um að halda vélinni við með góðri aðstoð flugfélaganna hér í gegnum árin, Flugfélags Íslands og Icelandair.

 

Í lok erindis síns nefndi formaðurinn að framundan væri að breyta vélinni aftur í farþegaflugvél og setja í hana viðeigandi innréttingu með sætum. Sagði hann það mikið verkefni og kostnaðarsamt og nú væri unnið að fyrsta skrefinu sem er að undirbúa teikningar og verklag við breytinguna. Nýtur félagið stuðnings Icelandair við verkið. Þá þakkaði hann gott samstarf við Flugsafn Íslands þar sem vélin hefur fengið inni síðustu árin.

 

Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri og varaformaður í félaginu, sagði frá landgræðslustarfinu með Þristinum og sagði hann það alltaf hafa verið mjög ánægjulegt verkefni og gott samstarf milli Landgræðslunnar og flugmanna um verkefnið þau 33 sumur sem landgræðsluflugið stóð. Hann vonaðist til að Þristurinn myndi fljúga farsællega í önnur 70 ár.

 

Í lok fundar var sýnd mynd um landgræðsluflugið og síðan var boðið uppá veitingar og menn gátu horft áfram á myndasýningar og skoðað aðrar vélar og muni sem eru til sýnis á flugsafninu. Næstu daga verður Þristinum komið fyrir inni í safninu þar sem hann nýtur þess að vera í einu besta skjóli sem hann hefur nokkru sinni fengið um ævina hjá Flugsafni Íslands.

Myndin sem fylgir frétt þessari er fengin góðfúslega að láni frá Pétri P Johnson

Nýjustu fréttirnar

Saga Gunnarsholts

Sveinn Runólfsson, fyrverandi Landgræðslustjóri og varaformaður Þristavinafélagsins, hefur skrifað bók um sögu Gunnarsholts....

Lesa frétt

SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA ÞRISTAVINA

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.