2. maí 2007
Góðir félagar,
Nú styttist í sumarið og að Douglasinn okkar fari aftur á flug. Hugmyndir eru uppi um að breyta vélinni aftur í farþegaflugvél. Okkur tókst því miður ekki að fjármagna það fyrir sumarið. Við vonum hinsvegar að það takist og vélinni verði breytt fyrir sumarið 2008. Ekki verður dreift áburði í sumar eins og undanfarin 33 ár. Vélin verður hins vegar aðallega notuð í flug í tengslum við 70 ára afmæli Icelandair. Hversu mikið flug það verður er ekki vitað á þessari stundu en þó ljóst að vélinni verður flogið eitthvað minna en undanfarin sumur. Vélin hefur verið geymd í skýli á Keflavíkurflugvelli í vetur og við reiknum með að geyma hana úti á Reykjavíkurflugvelli í sumar þar sem hún ætti að vera sýnileg eins og í fyrrasumar.
Þar sem vélin verður ekki notuð meira í áburðarflug þá er afar mikilvægt að okkur takist að breyta henni í farþegavél þannig að við getum boðið upp á útsýnisflug fyrir meðlimi okkar og þannig haft pening uppí þann kostnað sem er við að fljúga vélinni, líkt og Þristavinafélögin á hinum Norðurlöndunum gera.
Vegna tæknilegra örðuleika hefur ekki verið unnt að senda út rukkun fyrir félagsgjöldunum. Það er í vinnslu núna og þið munið fá greiðsluseðil fljótlega.
Aðalfundur DC-3 Þristavina verður haldin þann 15. maí í Flugröst í Nauthólsvík. Ætlunin var að halda aðalfuninn í apríl, eins og lög félagsins gera ráð fyrir, en sökum ýmisa óvissuatriða um flugið í sumar þá ákvað stjórnin að halda fundinn þegar þau atriði lægu ljós fyrir.
Þetta bréf er því aðalfundarboð DC-3 Þristavina og líka örlítið upplýsingarbréf. Ég vonast til að sjá sem flest ykkar á aðalfundi félagsins og að þið leggið okkur lið við að halda vélinni í flughæfu standi. Það væri gott að heyra þær hugmyndir sem þið hafið um hvaða leiðir þið sjáið færar í því.
Þristakveðja
Tómas D. Helgason
Aðalfundarboð
Aðalfundur DC-3 Þristavina verður haldinn í Flugröst í Nauthólsvík þriðjudaginn 15. maí kl. 17:00.
Dagskrá:
- Venjuleg aðalfundarstörf.
- Önnur mál.
Reikningar félagsins fyrir árið 2006 munu liggja frammi á aðalfundinum.