Þristavinir eða Dakotavinir? Formanni félagsins hefur borist ódagsett bréf frá "Dakota vini", sem hefst með eftirfarandi spurningu: "Hvers vegna er verið að tala um "Þristavinafélag" þegar (með e.t.v. einni undantekningu) átt er við C-47 flugvélar (Dakota)?". Bréfið var lagt fram og rætt á stjórnarfundi 30. ágúst 2007. Stjórnarmenn voru sammála, að ekki væri ástæða til að leggja til breytingar á nafni félagsins. Eftirfarandi skýrir þá afstöðu nánar: Um sögu DC-3 hafa verið ritaðar margar bækur. Í heimildarritinu "The Complete Encyclopedia of World Aircraft" (1998) er ítarlega rakin þróun DC-1, DC-2 og DC-3 á árunum 1932-1939. Síðan segir þar um kaup bandaríska hersins á DC-3: "Ordered in large numbers in 1940 these aircraft became designated C-47 and acquired the name Skytrain, and were the precursors of an enormous and diverse military series. C-47s were notable glider tugs, being involved in actions in Sicily, Burma and Normandy. Many of those supplied to the U.K. under Lend-Lease were involved in the D-day operations in Normandy, and these aircraft were named Dakota in British service." Síðan eru í bókinni taldar upp 130 mismunandi herútgáfur af DC-3. Meðal þeirra eru eftirfarandi fjórar Dakota-gerðir: "Dakota Mk I: RAF equivalent of the C-47 (52 aircraft supplied under Lend-Lease and one built from spares)", "Dakota Mk II: RAF equivalent of the C-53 (nine aircraft supplied under Lend-Lease)", "Dakota Mk III: RAF equivalent of the C-47A (12 supplied by the USAAF and 950 supplied under Lend-Lease)", og "Dakota Mk IV: RAF equivalent of the C-47B (896 supplied under Lend-Lease)". Í Bandaríkjunum voru smíðaðar samtals 10.692 DC-3 flugvélar af ýmsum gerðum, bæði fyrir borgaralegt flug og fyrir ýmiss konar hernaðarlega notkun. Þeim til viðbótar voru um 2.000 smíðaðar í Sóvétríkjunum með heimild frá Douglas, og þar nefndar Lisunov Li-2. Heildarframleiðslan var því um 12.692. Samkvæmt framangreindu yfirliti fékk breski flugherinn samtals 1.920, sem hann nefndi Dakota, en þær eru samsvarandi aðeins um 15% af heildarframleiðslu DC-3 flugvéla. Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar keyptu flugfélögin fjölda flugvéla, sem framleiddar höfðu verið til hernaðarþarfa, þ.á m. alls kyns herútgáfur af DC-3. Undantekningarlaust voru þær tilgreindar sem DC-3 í flugáætlunum félaganna, en ekki t.d. sem C-47, Skytrain eða Dakota. Sama gilti hér á landi um DC-3 flugrekstur Flugfélags Íslands og Loftleiða, þótt þær flugvélar hafi áður verið framleiddar sem C-47, C47A eða C-47B. Á stofnfund félagsins DC-3 Þristavinir, sem haldinn var á Reykjavíkurflugvelli 3. mars 2005, mættu 96 stofnfélagar. Þar voru samhljóða ákveðnar samþykktir fyrir félagið, og kom engin athugasemd fram um nafn félagsins. Samkvæmt 12. grein þessara samþykkta þarf minnst 2/3 atkvæða allra félagsmanna til breytinga á þeim. Sé á aðalfundi 2/3 meirihluti samþykkur tillögu um breytingar, en færri en 2/3 allra félagsmanna eru þar mættir, skal taka tillöguna fyrir á aukaaðalfundi, og þar telst hún samþykkt ef 2/3 hlutar mættra félagsmanna greiðir henni atkvæði. |